Fórum af stað úr bænum á 3 jeppum kl 5:00 að morgni fimmtudags á 3. gosdegi. Greinilegt var að dregið hafði úr gosinu þar sem strókurinn sást ekki rísa hátt. Vorum komnir að gosstöðvunum rétt fyrir kl 12.00 á hádegi. Vaðið var rétt fyrir sunnan Jökulheima og var djúpt svona ca. upp fyrir 44" dekk. Á bakaleiðinni fannst annað vað ca. 50 - 100 metrum sunnar og var það allt annað. Hitastig var um -6° C við jökulröndina og -10° C við Grímsfjall. Það hafði snjóað og frá Veiðivötnum var um 15 cm snjóalag. Færið á jöklinum var sæmilegt en verður að ég tel erfiðara ef það hlánar og rignir. Mikið er um svelgi og sprungur en allt þokkalega sýnilegt en í ca 1100 m hæð er snjóalínan og upp í 1200 m hæð er krapasvæði. Eftir það er ágætt færi en þyngist í restina. Höfðum skyggni einungis í 30 mínútur að gosstöðvunum og biðum í 2 tíma eftir betra skyggni en gáfumst þá upp. Um 20 bílar voru þarna á ferðinni.