Stikuferðin var í ár farin helgina, 29 - 31 ágúst. Í samvinnu við Umhverfisstofnun og Ingibjörgu Íbí eins og hún vill kalla sig en hún er svæðalandvörður á suðurlandi og miðhálendi hjá Umhvefisstofnun var búið að velja að stika leiðina frá Sátubarni yfir Pokahrygg og Reykjadal að Íshellinum við Hrafntinnusker og síðan milli Reykjadals og Dalakofa. Þaðan átti svo að stika að vegi F 210 á Syðra Fjallabak. Þarna var um á fjórða tug kílómetra kafla að ræða. Á þessari leið hefur talsvert af stikum gengið úr sér á síðustu árum, sumar brotnað og aðrar jafnvel skolast burt. Í ár fórum við með um 400 stikur með okkur í ferðina. Megnið af þeim var sett upp á þessum kafla og einnig voru endurnýjuð glitmerkin á mörgum stikum sem fyrir voru. Þessu til viðbótar var raðað steinum fyrir óþarfa hjólför þar sem því var við komið eða þau afmáð með því að krafsa og raka yfir þau, til að hindra frekari utanvegaakstur.
Þær stikur sem nú voru notaðar voru gerðar úr íslensku lerki og umhvefisstofnun vildi ekki að þær yrðu litaðar á nokkurn máta, því voru þær hvorki málaðar né merktar okkur að þessu sinni.
Dalakofinn, skáli Útivistar stóð okkur til boða alla helgina og var þar sofið og síðan grillaði hópurinn saman á laugardagskvöldinu. Á Skúli og Útivist okkar bestu þakkir fyrir afnotin af skálanum.