Góð grein og þýðing á henni

jong
Posts: 122
Joined: 2016-12-09 08:Dec:th

Góð grein og þýðing á henni

Postby jong » 2017-02-17 19:Feb:th

Þetta er svo góð grein að ég ákvað að þýða hana á íslensku

http://www.roadandtrack.com/car-culture ... 000-miles/

Höfundur; Zach Bowman, 13.mars 2015

Af hverju í FJ!. keypti ég Ram sem var ekinn 281.000 mílur?


Ég seldi Scout '78 fyrir eitthvað öruggara og áreiðanlegra. Eitthvað eins og Dodge með 281.000 mílur á teljaranum.

Í fyrsta skipti í 17 ár á ég ekki V-áttu, eða eitthvað með blöndung, sem er ekki með handföng eða snæri til að toga í. Af þeim fimm hræðilega ópraktísku ökutækjum sem fylla heimreiðina og bílskúrinn þessa stundina, er aðeins eitt frá síðustu öld og ég hef nú þegar rifið út því innyflin sem eru frá fornlífsöld og ætla mér að skipta þeim út fyrir önnur sem eru yngri en 2000-vandinn.
Þetta hljómar ekki eins og ég. Ég hef eytt hálfri ævinni starandi niður í fjögurra hólfa blöndung.

Ég seldi síðasta gamla reynsluboltann viku áður en dóttir mín fæddist. Ég hafði átt þennan International Scout Terra, árgerð 1978 í næstum áratug eftir að hafa skipt á honum og tveggja daga vinnu og hirt hann upp af akri. Margir voru búnir að gefast upp á honum áður en ég birtist, en ég var of heimskur, eða of bjartsýnn eða með of mikinn frítíma til að gera það sama. Kannski allt þrennt saman.
Scout-inn fylgdi mér frá einni vinnu til annarrar, frá einu ríki til annars. Ég bað konunnar minnar sitjandi á afturhleranum á honum. Þegar kom að því að innrétta fyrsta húsið okkar upp á nýtt smíðaði ég grind aftur í hann og notaði hana til að flytja niðurrifið burt og nýja efnið heim. Hann var hundtryggur, en alltaf hálfgerð málamiðlun eins og gamlir bílar eru. Gamla International 304 V-áttan undir húddinu drakk bensín eins og svampur, en framleiddi minna afl en Toyota Camry. Það var heitt inni í honum á sumrin, kalt á veturna og allt árið meiri dragsúgur en í gamalli hlöðu.
Hann var líka varasamur. Eftir mörg ár af grúski, viðgerðum og endurbótum var hann eins viðhaldslega fullkominn og hugsast gat, en hann var líka með árekstraröryggi á við eplakassa.
Ég myndi setjast klofvega á mótorhjól með bremsur á einu hjóli og fastann bensínbarka, en tilhugsunin að setja ófríska eiginkonuna í farþegasætið gerði mig órólegan. Og ég harðneitaði sjálfum mér því að setja dóttur mína í Scoutinn. Ég var ekki órólegur út af Scoutinum, heldur af hálfsofandi snjallsímadrónunum á veginum í kringum okkur. 

Þannig að ég seldi hann.
Ætlunin var að skipta honum út fyrir eitthvað lítt áberandi. Verðlaust. Eitthvað sem ég myndi ekki þurfa að hafa áhyggjur af að skilja eftir úti í rigningu. Eitthvað sem hægt er að fá varahluti í. Chevrolet. Eitthvað með þrjóskri bensínvél og aftursæti. Ég var reiðubúinn að borga hvítuna úr augunum fyrir trukk sem leit ekki út fyrir hafa einhvern tímann verið hent í grjótnámu. Því algengari, því betra.
Þetta þýddi að það þurfti að fórna einhverju. Scout-inn var fjögurra-gíra beinskiptur. Að færa þessa löngu stöng milli gíra var eins og og nota eitthvað ævafornt og dularfullt mekkanó. Stöngin small á sína staði með hljómrænni nákvæmni sem var bæði ánetjandi og ánægjuvekjandi. Kassinn hafði mannasiði á við úthafstogara. Þunga steinsteypublokkin undir húddinu var iðnaðartæki af bestu sort. International fyrirtækið notaði hana í allt frá vörubílum til byggingarkrana, og borholudælum til rafstöðva. Staðreyndin að sama vél hafi verið notuð í rútubíla úti á þjóðvegum var bæði drepfyndið og frábært í senn. Það var líka ástæðan fyrir því að Scout-inn hafði lifað af 37 ár af misnotkun og vanrækslu.

Óskin um nútímalegan trukk virtist þýða þörf á að sætta sig við sjálfskiptingu og neytendavænan mótor. Það þýddi að það þurfti að fara á kaf í ódýrt plast og rafmagnsrúður. Mér fannst eins og Wal-Mart hefði loksins náð mér, og ég gætti fjandann ekki gert í því.
Eftir að hafa reynsluekið slatta af 6-lítra V-áttum með sprungnar heddpakkningar, horfna pústbolta og verðmiða vitlausu megin við geðveiki, prófaði ég eitthvað allt annað:
Dodge 2003 með 281.000 mílur á teljaranum. Mig langaði ekki í Dodge, díselvél, eða trukk sem þyrfti eitthvað meira en yfirferð með smúlslöngu og stopp á bensínstöð.
Í staðinn stóð ég mig að því að aka heim á illa börðum Cummins sem vantaði allt sem trukk gæti vantað: Dekk, hjólalegur, spindilkúlur, hjöruliði, dempara, bremsur, rúðu og miðstöð sem virkar.
Svo til það eina sem ekki þurfti lagfæringa við var kramið.

En vá- þvílíkt kram. 5,9 lítra túrbó- línusexan er alger dráttarklár. Glamrandi hrúga af stimplum og togi. Hún er hávær og ósiðuð. Það eins eins og hún hafi villst á leiðinni í traktoraverksmiðjuna og endað í pallbíl í staðinn.
Ég elska hana, mig langar í svona í ryksuguna mína. Staðreyndi að hún gefur út 555 pund-fet af togi eins og hún kemur frá verksmiðjunni skemmir ekki. Né heldur að hún er boltuð við sex gíra beinskiptan kassa. Það er gólfskiptur millikassi líka og þetta sendir aflið í tvo gríðarsvera heila öxla.
Með sinni lokuðu prófílgrind er þetta eins nálægt nútíma-útgáfu af Scout og ég get komist. Ekki í ytra máli eða hönnun, heldur hvernig tilfinningin er. Þetta er sómakær trukkur, byggður án tillits til borgarumferðar, samgöngukerfa eða beygjuradíuss.
Þetta er verkfæri, ekki viðhengi og það fær mig til að glotta eins og fífl í hvert skipti sem ég heyri hann skrölta í gang af tómum mótþróa við míluteljarann.
Ég sakna blöndunganna minna og heimsku 8-áttanna en ekki nóg til að fara til baka. Dodge-inn er skýr áminning um að það er enn pláss fyrir góða dráttarklára í heimi fullum að sýningarhrossum og verðmiðum sem eru í samkeppni við íbúðarlán.

Þú þarft þó kannski að hrufla nokkra hnúa til að halda þeim í gangi.

fridrikh
Posts: 79
Joined: 2016-11-07 10:Nov:th

Re: Góð grein og þýðing á henni

Postby fridrikh » 2017-02-19 10:Feb:th

Sælir

Gaman að fá svona fína grein hér á síðuna.
Takk Jón fyrir að deila þessu með okkur.
kv
Friðrik


Return to “Allt annað”

Who is online

Users browsing this forum: No registered users and 3 guests