Skilmálar vefs Ferðaklúbbsins 4×4

  1. Skilmálar þessir gilda fyrir alla notkun á vefsvæði Ferðaklúbbsins 4×4, f4x4.is.
  2. Skilmálarnir geta breyst án fyrirvara ef þörf þykir.
  3. Notkun vefsvæðisins skal vera í samræmi við hlutverk klúbbsins eins og það er skilgreint í lögum hans.
  4. Brot á skilmálum þessum getur valdið tafarlausri brottvikningu af vefsvæði klúbbsins og síendurtekin brot geta varðað brottvísun úr klúbbnum.
  5. Notendur skulu gefa upp rétt nafn og kennitölu við nýskráningu, sem og heimilisfang og tölvupóstfang. Skráningum sem ekki uppfylla þetta skilyrði verður tafarlaust eytt.
  6. Óheimilt er að nota aðgang annarra. Þar með talið er óheimilt að lána öðrum aðgangsorð sitt, nota kennitölu eða félagsnúmer annarra, reyna að komast yfir aðgangs- og lykilorð annarra eða nota á annan hátt gögn sem tilheyra öðrum.
  7. Óheimilt er að nota aðganginn til að brjótast eða reyna að brjótast inn í tölvukerfi eða tölvunet annarra eða til að valda tjóni á búnaði eða gögnum. Ferðaklúbburinn 4×4 ber ekki ábyrgð á því tjóni sem slíkt kann að valda.
  8. Haga skal notkun í samræmi við góða siði og umgengnisreglur. Ærumeiðingar, tilhæfulausar ásakanir og árásir á aðra notendur eru ekki liðnar. Þursar, sem hafa það eina markmið að koma af stað rifrildum, eru ekki umbornir og mun slíkum þursum verða meinaður aðgangur að síðunni í skemmri eða lengri tíma. Upplýsinganefnd metur það hverju sinni hvort viðkomandi notandi sé að þursast eður ei og getur lokað aðgangi hans tímabundið. Stjórn Ferðaklúbbsins 4×4 í samráði við Upplýsinganefnd ákveður hvort lokun skuli vera varanleg.
  9. Notendum skal vera ljóst að þeir bera sjálfir persónulega ábyrgð á öllu sem þeir skrifa eða senda á vefinn. Þeir skulu því haga notkun sinni á vefnum með þeim hætti að ekki sé brotið á friðhelgi persónu né einkalífi annarra. Upplýsinganefnd mun fjarlægja slík skrif án nokkurs fyrirvara.
  10. Óheimilt er að nota upplýsingar af vefsvæðinu til að senda óumbeðnar fjöldasendingar.
  11. Fyrirtækjum er óheimilt að auglýsa á vefsvæðinu nema gegn greiðslu.
  12. Óheimilt er að birta efni á f4x4.is sem ekki er í samræmi við lög og reglur eða almennt velsæmi, þar með talið ærumeiðandi efni.
  13. Forsvarsmenn Ferðaklúbbsins 4×4 munu eftir fremsta megni reyna að tryggja öryggi þeirra gagna sem geymd eru á vefsvæðinu. Klúbburinn ber þó ekki ábyrgð á tjóni sem kann að orsakast af notkun vefsvæðisins eða ef vefsvæðið er ekki aðgengilegt af einhverjum ástæðum. Einnig ber klúbburinn ekki ábyrgð á gögnum sem geymd eru á búnaði vefsvæðisins ef þau tapast eða skemmast.
  14. Ferðaklúbburinn 4×4 áskilur sér rétt til þess að nota allt efni sem notendur vefsvæðisins birta á vefsíðunum, s.s. myndir, texta eða skrif á spjallið, í þágu starfsemi Ferðaklúbbsins, hvort sem það er til birtingar annars staðar á vefsvæðinu, í félagsritum eða öðrum vettvangi í nafni Ferðaklúbbsins. Önnur nýting á efni því er birtist á vefsvæðinu er óheimil án heimildar stjórnar klúbbsins og höfunda viðkomandi efnis.