Félagsfundur 2. September 2013

Sæl og takk fyrir góðan fund.

Fyrsti félagsfundur starfsársins var haldinn í Bíósalnum á hótel Natura (Loftleiðum). Mættir voru um 50 – 60 manns og hófst fundurinn (eftir tæknivandamál) kl. 20:15.

Dagskrá fundarins var eftirfarandi:

  1. Innanfélagsmál
  1. Stórsýning Félagsins í Fífunni
  1. Opnar umræður um störf klúbbsins

Fyrst var farið yfir störf stjórnar, Þar kom fram að formaður klúbbsins hefur í sumar farið á fundi með Kristínu Lind framkvæmdarstjóra Umhverfisstofnun og á þeim fundi sagðist formaður klúbbsins ekki sætta sig við það,  að klúbburinn fengi ekki fulltrúa í ráðgjafanefnd um Friðlandið að Þjórsárverum.  Margt annað var rætt á fundinum en Kristínu var gerð grein fyrir að klúbburinn myndi ekki samþykkja verndaráætlunina eins og hún var sett upp.  Þó ber að geta að mikið samstarf var á milli Umhverfisstofnun og Ferðaklúbbsins 4×4 um Verndaráætlunina.

Fundur náðist með ráðherra þar sem farið var yfir aðkomu okkar að störfum þjóðgarðsins. Með mér á fundinn fór Snorri  Ingimarsson sem er áheyrnarfulltrúi Samút í stjórn þjóðgarðsins.  Fundurinn sem átti að vera í 20 mín entist í 1,5 tíma og var mjög gaman að ræða við Sigurð Inga ráðherra.  Má segja að fundurinn hafi haft einhver áhrif því þegar Verndaráætlun um þjóðgarðinn var samþykkt var gerð athugasemd við áætlunina og stjórn þjóðgarðsins gert að semja við útivistarfélög um Vonarskarðið.

Friðrik Halldórsson gjaldkeri fór yfir stöðu fjármála klúbbsins og sagði að það væri stöðugt útstreymi af sjóðum félagsins.  Margir reikningar væru að koma inn frá fyrri stjórn sem núverandi stjórn hefði ekki vitað að væru ógreiddir.  M.a. vegna stórferðarinnar en þar eru reikningar vegna björgunar, skálagjalda og styrkbeiðni frá Hornfirðingum vegna móttöku.  Þetta á allt eftir að skoða en greinilegt er að ef við förum ekki að spýta í lófana þá verður lítið eftir í sjóðum félagsins.  Það er stefna þessara stjórnar að stöðva útstreymi og koma starfi félagsins á réttan veg.

Stjórnin og stjórnarmenn sátu á ýmsum öðrum fundum á vegum félagsins, m.a. tveimur fundum með nefndum klúbbsins.

Man reyndar ekki hvað ég sagði meira.

Næst komu nefndirnar:

  1. Hjálparsveit.

Stefán í Hjálparsveitinni sagði að lítið væri að frétta og vinna stæði nú í fullum gangi varðandi sýninguna.

2.  Fjarskiptanefnd.

Þar er mikið búið að gera, laga þurfti sendirinn í Bláfjöllum og loftnet í Setrinu var stillt inn á Hlöðufells endurvarpann og  sett ný talstöð upp í Setrinu sem er opin á 58. Nú er hægt að ná í Setrið úr Reykjavík í gegnum Hlöðufells endurvarpann.

  1. Tækninefnd.

Enginn úr Tækninefnd var á fundinum.

  1. Litlanefnd.

Pétur í Litlanefnd  kom með mjög fína skýrslu og kynnti komandi starfskrá. Hugmynd er að fara í eina ferð á mánuði í vetur. Í desember er verið að skoða ferð með Einstök börn. Það mál verður skoðað nánar og í samstarfi við stjórn.

  1. Vef og upplýsingarnefnd.

Sigurður B. Kynnti hugmynd að nýjum vef félagsins. Farið var yfir forsögu sem er einföld. Vefurinn er ekki notendavænn og mjög leiðinleg myndasíða . Reyndar gleymdist að segja frá öllu árásum hakkara á vefinn sem veldur því að vefurinn hefur legið niðri.

  1. Skálanefnd.

Logi Már og Rúnar komu upp og sögðu frá ótrúlegu starfi Skálanefndarinnar við byggingu neyðarskýlis við Setrið. Húsið er mjög langt komið og öll olíumál komin í hús auk rafstöðvarinnar. Hægt er að fá nánari upplýsingar á vef klúbbsins.

  1. Umhverfisnefnd.

Hjörtur (Jakinn) kom upp og sagði frá ferðum nefndarinnar. Um var að ræða tvær ferðir og var sú síðari farin síðastliðna helgi og var það stikuferð. Nánar um ferðina á vefnum.

  1. Aðrar nefndir – Skemmtinefndin Afmælishátíðin 2. nóvember 2013.

Ég sagði örlítið frá starfi skemmtinefndar en vinna við afmælishátíð klúbbsins er vel á veg kominn.  19. Hæðin varð fyrir valinu nú að þessu sinni og mun Bjarni töframaður verða veislustjóri og Ingó veðurguð halda uppi fjörinu (spurning hvort við getum eitthvað samið við hann um snjóalög og vetrarfærð) . allar nánari upplýsingar verða á næsta félagsfundi og á vef klúbbsins.

Var nú tekið stutt kaffihlé.

Eftir kaffi voru sýningarmálin rædd:

  1. Skipulag.

Kynnt var skipulag sýningunnar og sýnd teikning af svæðinu og málin rædd.

  1. Opnun.

Opnun sýningarinnar verður kl. 17:00 á föstudeginum fyrir boðsgesti. Og mun opnunin verða eftirfarandi:

Föstudagur frá kl. 18:00 -22:00

Laugardagur frá kl. 12:00 – 20:00

Sunnudagur frá kl. 12:00 – 20:00 .   Klúbburinn mun fá húsið afhent á fimmtudeginum og verður þá byrjað að raða upp.

  1. Kynning á starfsemi klúbbsins.

Kynningarmálum klúbbsins á sýningunni eru í góðum höndum. Ný nefnd hefur hafið störf og eru í henni Eyþór Ólafsson, Hjalti magnússon, Ólafur Ólafsson, Þorgrímur St. Árnason, Árni Bergsson og Kristján Kolbeinsson. Eyþór fór yfir hugmyndir að kynningarmálum og hvatti menn til að taka þátt í starfinu með því að senda inn myndbönd og myndir.  Allir þeir sem hafa eitthvað til málanna að leggja endilega notið syning@f4x4.is

  1. Starfsmenn.

Starfsmannahald er allt í vinnslu.  Manna þarf Miðasölu, veitingasölu, minjagripasölu og gæslu á svæðinu.

  1. Bílavalsnefnd.

Þarna er allt á fullu, Kristján Kolbeinsson sagði frá því að hann, Bjarni og Teddi hefðu staðfesta  yfir 100 bíla á sýninguna og búið að tala við yfir 150 eigendur þannig að af nægu er að taka. Reglur verða eins og alltaf, en eigendur bíla verða að vera við bílana meðan sýningin fer fram, en sérstakur fundur verður á mánudagskvöldið næstkomandi með bíleigendum.

  1. Opnar umræður .

Þessi umræðu liður fór svona fyrir ofan garð þar sem umræðurnar voru opnar allan tíman.

Að lokum var tekin upp umræða um stöðu klúbbsins.

  1. Fimmdudagskvöld – Opið hús.

Hér voru menn á því að auka ætti kynningar og fræðslu á fimmtudagskvöldum allavega að gera eitthvað sem myndi trekkja að.

  1. Mánudagsfundir.

Hér var stiklað á stóru, hvað vilja félagsmenn fá að heyra á fundum?  Fyrirlestra? Tæknimál? Kynning á bílum félagsmanna?  Eða skemmtilegar sögur af svaðilförum.

  1. Ferðir á vegum félagsins

Hér var rætt um ferðir á vegum nefnda ma. Skálanefndar þær ferðir eru farnar að hausti til, ferðir  Umhverfisnefndar en í þeim ferðum hefur fækkað mikið. Þær ferðir sem hefur verið mesta aukning í og hefur skilað miklu eru ferðir Litlunefndarinnar.

  1. Stórferðin – Reglur og aldur.

Hér var rætt um ferð síðasta árs og að við þyrftum að læra af mistökum. Sennilega voru við værukær eftir að hafa farið nokkrar ferðir sem allar tókust vonum framar. Menn voru greinilega búnir að gleyma Krapa 2000 og Miðjuferðunum frægu.  Skipulag ferðanna þótti gott og ekkert hægt að setja út á þá sem skipulögðu

ferðina, enda stóðu þeir sig frábærlega þegar þeir fóru aftur upp og sóttu fólk úr bílum sem voru bilaðir eða fastir. Ekkert ákveðið neitt um framhaldið en menn beðnir um að halda uppi umræðu og senda stjórn hugmyndir.

  1. Innganga nýrra félaga.

Hér verður ekki komist hjá áhyggjum af hækkandi meðalaldri í félaginu, hvar eru ungu jeppamennirnir? Af hverju náum við ekki í ungt fólk til að koma í félagið? Ein hugmynd var um að gefa frí félagsgjöld að ákveðnum aldri.  Þá var talað um Ungliðanefndina sem stofnuð var 2008 en lagðist niður og hefur ekki verið starfandi vegna þess að enginn hefur gefið kost á sér. Þá vildi svo til að þrír ungir menn gáfu kost á sér til að stýra Ungliðanefndinni  en það eru: Þengill Jónsson, Brynjar Pétursson og Arnar Gunnarsson og bjópum við þeim velkomna til starfa.

Ekkert fl. Var rætt á fundinum og honum slitið.

 


 


Skildu eftir svar