Hálendissýn stefnumótunarfundur

 

Umhverfisnefnd 4×4 heldur viðburðinn Hálendissýn Ferðaklúbbsins 4×4: Stefna til framtíðar! Þar sem félagsfólki er boðið að skrá sig og leggja drög að stefnu klúbbsins. Sú hugmynd er ekki ný af nálinni en það hefur oft áður borið á góma í félagsskapnum að koma henni á blað.
Tilgangur þess að hafa stefnu tiltæka í handraðanum er margvíslegur; stefna sameinar sjónarmið þeirra sem stunda klúbbinn, getur verið nýtt í fræðslu og ekki síst stuðlað að málefnalegri umfjöllun um þau fjölmörgu og mikilvægu málefni sem meðlimir klúbbsins láta sig varða – t.d. ferðafrelsi!
Dagskráin er fjölbreytt þar sem bæði erindi frá sérfræðingum, áhugafólki og aðrar kynningar verða á boðstólnum og fjölbreyttar umræður þar sem sjónarmið félagsfólks verður rituð niður og unnið með afurðina með það að leiðarljósi að kynna fyrir klúbbnum á félagsfundum á mánudögum eftir því sem vinnst, og að lokum drög að fyrstu útgáfu stefnu klúbbsins lögð fram á aðalfundi í vor.
Komin eru drög að dagskrá en staðsetning verður auglýst síðar. Skráning verður formlegri þegar nær dregur en frábært er ef áhugasöm melda sig á viðburðinn til að auðvelda skipulagningu hans. Athugið að viðburðurinn er einungis ætlaður félagsfólki en öllum er frjálst að skrá sig í klúbbinn!
Við trúum því að þetta verði heilla skref fyrir klúbbinn, og hagsmunabaráttuna sem felst í verndun og ástundun einnar helstu náttúruperlu okkar – hálendisins. Við hlökkum mikið til að fá sem fjölbreyttastan hóp að borðinu til að hafa skoðanaskipti og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Fólk sem ferðast um á fjórhjóladrifs bifreiðum er hvatt til að ganga í klúbbinn til að taka þátt! https://www.f4x4.is/um-ferdaklubbinn/ganga-i-klubbinn/
Félagsgjöld greidd á síðari hluta árs gilda út árið 2024