Isavia úthlutar Ferðaklúbbnum 4×4 styrk úr samfélagssjóði

21. mars 2017

Isavia hefur úthlutað styrkjum til ellefu verkefna úr samfélagssjóði sínum. Verkefnin eru af fjölbreyttum toga en við val á styrkþegum er áhersla er lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári og ætíð berst nokkuð mikill fjöldi umsókna. Verkefnin sem fengu styrk að þessu sinni eru:

Suðurnesjadeild Ferðaklúbbsins 4×4 fékk styrk til að koma í veg fyrir gróðurskemmdir og landfok af völdum utanvegaaksturs með því að merkja leiðir og lagfæra tjón sem orðið er.
Líf styrktarfélag fékk styrk fyrir Globeathon styrktarhlaupið/-gönguna, alþjóðlegt átak til að vekja athygli á krabbameini í kvenlíffærum
Einstök börn fengu styrk til námskeiðshalds og meðferðarviðtala fyrir systkini barna með sjaldgæfa alvarlega sjúkdóma.
Rauði krossinn við Eyjafjörð fékk styrk til kaupa á peysum fyrir áfallateymi Rauða krossins sem sinnir meðal annars sálgæslu.
Team Rynkeby styrktarfélag mun í sumar hjóla frá Kaupmannahöfn til Parísar. Isavia styrkir ferðina, en styrkurinn rennur óskiptur til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.
Samgönguminjasafnið í Skagafirði hlaut styrk til reksturs safnsins. Samgönguminjasafnið geymir merkar minjar sem tengjast samgöngusögu Íslendinga, meðal annars bíla, rútu, mótorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og margt fleira.
Vesturfarasetrið á Hofsósi fékk styrk til verkefnisins Grettings from Iceland. Hópur Íslendinga fer til Vancouver og Victoria í Kanada og stendur fyrir menningarviðburðum með það að markmiði að auka samskipti og treysta sambandið við fólk af íslenskum ættum í Norður-Ameríku.
Myllubakkaskóli fékk styrk til keppnisferðar á First Lego League Scandinavia Lego hönnunar keppnina sem haldin var í Bodø í Noregi.
Héraðssamband Strandamanna hlaut styrk til eflingar æskulýðsstarfs íþróttafélaga á Ströndum en Héraðssambandið samanstendur af Golfklúbbi Hólmavíkur, Sundfélaginu Gretti, Skíðafélagi Strandamanna og ungmennafélögunum Leifi heppna, Neista, Geislanum og Hvöt.
Bandalag íslenskra skáta heldur World Scout Moot 2017, heimsmót skáta á aldrinum 18-25 ára, á Íslandi. Skátamót ehf. hlaut styrk til verkefnisins.
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hlaut styrk til að setja upp veglega sýningu um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur og sögulegt forsetakjör hennar. Sýningin verður opnuð í tengslum við vígslu nýbyggingar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og opnun Vigdísarstofu hinn 20. apríl.
Styrkir Isavia

Isavia styrkir góð málefni á hverju ári eftir afmarkaðri stefnu sem er í samræmi við samþykkt stjórnar félagsins. Styrkirnir skiptast í þessa þrjá flokka: Styrktarsjóður Isavia hjá Landsbjörgu veitir styrki til björgunarsveita um allt land. Sveitirnar eru styrktar til kaupa á hópslysabúnaði og er sérstök áhersla lögð á björgunarsveitir nálægt flugvöllum og fjölförnum ferðamannastöðum. Styrktarsjóðir Isavia hjá HÍ og HR veita styrki til nemenda á meistara- og doktorsstigi sem vinna að lokaverkefnum tengdum flugi eða ferðaþjónustu. Háskólarnir annast úthlutun úr sjóðunum. Í gegnum samfélagssjóð leggur Isavia sitt af mörkum til þess að metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins fái dafnað. Til að skerpa á málaflokknum hefur félagið lagt áherslu á: Forvarnarverkefni fyrir ungmenni, líknarmál, góðgerðarmál, umhverfismál og verkefni sem tengjast flugi.