Janúarferð Litlunefndar

Nú er komið að fyrstu ferð Litlunefndar 2014, en hún verður farin laugardaginn 18. janúar næstkomandi.

Að þessu sinni er stefnan sett á Skjaldbreið og er ætlunin að reyna að nálgast hana að sunnanverðu. Fyrirkomulagið verður það sama og venjulega. Við hittumst á Stöðinni við Vesturlandsveg klukkan 8:30 og röðum okkur í hópa. Þaðan förum við upp á Þingvelli og inn á nýja veginn um Lyngdalsheiði og keyrum aðeins inn á hann. Fljótlega tökum við svo vinstri beygju og inn á slóða sem leiðir okkur inn á Gjábakkaveg framhjá Vörðunni. Við keyrum svo þá leið inn að Skjaldbreið að sunnaverðu og upp á hana eftir því sem færð og snjóalög leyfa. Hvert við förum svo er ekki ennþá ákveðið en nokkrir möguleikar eru í stöðunni. Ef við verðum heppin með færi og komumst öll upp á Skjaldbreið er mögulegt að fara niður norðanmegin og inn á Línuveg og á Þingvelli um Meyjarsæti. Ef ekki gengur að komast upp þá er líka mögulegt að fara Eyfirðingaleið í vestur og koma að Sandkluftavatni og þaðan niður á Þingvelli eða jafnvel niður í Skorradal. Ákvörðun um endanlegt leiðarval verður tekið af fararstjórum ferðarinnar þegar þar að kemur.

Skráning í ferðina er í fullum gangi á nýja vefnum og við viljum benda á að hún er með breyttu sniði frá því sem áður var. Nú nota almennir þátttakendur sama form og hópstjórar en merkja við ef þeir eru hópstjórar. Við minnum á að til þess að geta verið hópstjóri hjá Litlunefnd, þá þurfið þið að vera skráð sérstaklega á hópstjóralista Litlunefndar. Ef þið eruð ekki skráð á þann lista en hafið áhuga að taka þátt í þessu skemmtilega og gefandi starfi þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við okkur gegnum  Litlanefnd@f4x4.is.

Að lokum viljum við minna á kynningarfund vegna ferðarinnar sem haldinn verður í félagsheimili klúbbsins að Eirhöfða 11 þar sem farið verður nákvæmlega yfir ferðatilhögun. Fundurinn hefst klukkan 20:00 en við viljum biðja hópstjóra að mæta fyrr, eða klukkan 19:30

Bestu kveðjur og sjáumst hress.

Litlanefndin.