Fórum rétt rúmlega 20 bílar í dagsferð með Einstök Börn. Ég verð að segja að fyrir mitt leiti þá er þetta með betri ferðum sem ég fór í vetur. Innileikinn og gleðin hjá börnunum var svo frábær og skemmtileg að það snerti mann einstaklega. Í mínum bíl voru tveir bræður og mamman Otri, Hnikarr og Jóhanna sem öll voru mjög ánægð með ferðina. Því til staðfestingar er pakki. Ég fékk bréf í dag 21 maí frá póstinum sem á stóð að ég ætti þar pakka. Fór ég á pósthúsið eftir pakkanum og er ég fer að handfjatla pakkann sé ég að á honum stendur..... Send. Otri og Hnikarr. Fór þá um mig gleðihrollur því það voru drengirnir sem voru í jeppanum hjá mér. Sendu þeir mér pakkningu af Ávaxtate, Hraunbita og dós af Pringles og teikningu af okkur öllum í JAKANUM ásamt þakklæti fyrir frábæra jeppaferð. Er ég svo snortinn að orð fá ekki lýst. Þess má geta að ég á afmæli 21 maí og er því pakkinn frá drengjunum besta afmælisgjöfin til mín.