Ég skrapp vestur um páskana og kíkti á Glámu og Sjónfríð. Fór af Dynjandisheiði uppá Glámu, færi ágætt og nægur snjór. Komst uppá topp Glámu, skyggni var þá ekki mikið. Ágætis veður, en himinn og jörð runnu saman í eitt og lítið annað að sjá en beint niður með bílstjórahurðinni. Stefnan var tekin beint yfir á Snjónfríð, en það mistókst alveg hjá mér og endaði ég að lokum með að slá undan beint niður hlíðar Glámu, til að koma mér úr púðursnjó sem var hlémegin í fjallinu. Það var því asskoti erfitt að koma sér beint uppá Sjónfríð á ný, upp þennan púðurpitt...

Til að gera langa sögu stutta, þá komst ég ekki þangað upp, þrátt fyrir mikla þolinmæði ökumanns og ekki síst farþeganna. Hringdi ég þá í Sigga Óskars á Ísafirði til að koma á móti mér og búa til för niður að bílnum mínum. Hann ætlaði að koma eftir 3 - 4 tíma, en komst ekki heldur upp á Sjónfríð hinu megin frá. Með honum í för voru gamlir félagar mínir og vinir úr Björgunarsveitinni Tindum í Hnífsdal (Maggi Helga, Gummi Páll, Eyjólfur og Sæmundur), bæði á eigin bílum og bíl sveitarinnar. Enda sleppa menn þarna fyrir vestan ekki góðu basli ef það bíðst.

Og á meðan við famelían biðum eftir aðstoð, tók ekki betra við hjá mér eftir 6 tíma lóggírsvinnu við brekkuna góðu. Bíllinn steindauður og vill ekki í gang aftur. Og þá var lítið annað að gera en að bíða eftir Sigga og co. Og það endaði þannig að við fórum labbandi þessa 600 m sem voru á milli okkar, og frúin og stelpurnar voru fegnar að komast í koju á Ísafirði kl 5 á aðfararnótt laugardagsins. En kallinn þurfti að vakna aftur eftir 2 tíma, því Ísfirðingar voru búnir að ákveða að fara uppá Glámu og því upplagt að breyta þeirri jeppaferð í björgunartúr. Þar voru fremstir í flokki, Barði Önundar, Einar Már, Árni Þór, Bjössi Finnboga, Toggi, Raggi Gámur, Eyjólfur og fl góðir. Og viti menn, þessir öðlingar létu sig ekki muna um að kippa mér með og kippa bílnum upp brekkuna góðu og draga mig niður á veg. Við vorum reyndar með viðgerðatölvu með okkur, en hún sagði okkur að bíllinn væri í lagi, enginn bilun væri til staðar. Svo var Sprinter settur í hús á Ísafirði og fór auðvitað í gang daginn eftir heitur og fínn. Hugsanlegt er að ég hafi fengið einhvern vibba í tankinn er ég fyllt´ann snemma á föstudaginn langa. Það má því segja eins og er, að þessi föstudagur var mér langur. Ég vill nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem hjálpuðu mér um helgina. Án ykkar væri ég ekki kominn suður.

Kv Palli.

Ps, svo er ég afar stolur af eiginkonu minni, en hún hélt við drullutjakkinn í 40 mínútur, þegar ég í klaufagangi mínum affelgaði vinstra megin að framan efst á Glámunni. Og heppinn var ég að koma dekkinu einn á aftur... og bíllinn ruggaði allan tímann...og auðvitað er engin mynd til af því...

P