Jæja. Þar kom að því, lægri hlutföll og læsingar í trukkinn. Er með Dana 35 Reverse að framan sem tekur á kúptri framhlið (driveside) kambstannar þegar ekið er áfram en ekki á íhvolfri bakhlið tannar (coastside) eins og flest framdrif sem á að vera sterkara fyrirkomulag. Ford 8.8 að aftan. Byrjaði á framdrifinu. Þar lenti í smá basli því hlutfallið virðist ekki hafa verið nógu vel smíðað. Það var svo sem hægt að fá þokkalega útlítandi snertiflöt á miðju tannar nær tá heldur en hæl (tá er mjórri endi á tönn og vísar inn að miðju drifs. Hæll er þá nátturulega sverari endinn á tönn og vísar út frá miðju) eins og æskilegast er en sá flötur var bara mjó ræma og það sama mátti segja um snertiflöt á pinjón á móti. Þ.e.a.s. snertiflöturinn hafði ekki nægilega fyllingu. Það var ekki fyrr en ég skoðaði þessa trúverðugu síðu http://www.differentials.com/install.html að ég fór að skilja vandann betur og fá viðunandi lausn á honum aðra en að nöldra í þeim sem seldu mér hlutfallið og fá annað. Þar segir m.a: "In some cases an ideal heel to toe pattern can not be achieved. If the backlash is within specifications, you may disregard the heel to toe pattern. A contact pattern that is centered from face to flank always indicates correct pinion depth even if a pattern that is centered from heel to toe can not be obtained." Samkvæmt þessu og líka því sem mér fannst þá er einfaldlega ekki alltaf hægt að fá góðan snertiflöt á réttum stað á milli táar og hæls. Það er mikilvægara að einbeita sér að staðsetningu og fyllingu snertiflatar á milli rótar og topps tannar heldur en staðsetningu snertiflatarins á milli táar og hæls. Hæð pinnjóns er stillt fyrst og slag (backlash) á milli kambs og pinnjóns haft um leið innan viðmiðunarmarka en lítið spáð í slagið og það ekki stillt endanlega fyrr en hæð pinjóns er orðin rétt. Hæð pinnjóns ræður að langmestu leyti staðsetningu og fyllingu á milli rótar og topps tannar. Svo fer það eftir hversu góð smíðin á hlutfallinu er hvar snertiflöturinn lendir á milli táar og hæls eftir að hæð pinjóns hefur verið stillt. Slag ræður reyndar að vissu marki staðsetningu snertiflatar á milli táar og hæls en ekki eins afgerandi þáttur og hæð pinjóns. (Aukið slag færir snertiflöt að hæl og þá auðvitað færir minnkað slag snertiflöt nær tá). Fékk víðan snertiflöt á framhlið tannar og líka á pinnjón með að stilla hæð pinjóns þannig að snertiflöturinn endaði nálægt hæl en ekki nálægt tá eins og æskilegast er. Fór því með slag í lágmark til að færa snertiflötinn eins nálægt tá og mögulegt var. Hefði verið betra að hafa snertiflötinn nær tá því við átök vinnst kambur og pinjón hvor frá öðrum og slag eykst sem aftur þýðir að snertiflötur færist frá tá í átt að hæl. En á það var ekki kosið í þessu 4,56 framhlutfalli að mínu mati og var það illskárri kostur að hafa flötinn við hæl. Snertiflötur á bakhlið tannar varð víður líka en fór að vísu út úr enda tannar við tá. Við átök eykst slag, eins og áður sagði, og flöturinn færist innar inn á tönn nær hæl svo það ætti að sleppa. Það var mun betri smíði á afturdrifshlutfallinu og lítið mál og fljótlegt að fá snertifletina á því á réttan stað þ.e. nokkuð góða fyllingu á miðju tannar nær tá heldur en hæl. Að vísu var áferð stillimaks á bakhlið tannar eitthvað skrýtin, bæði frekar gróf og hrufótt en staðsetning flatar samt skítsæmileg þeim megin.