Jeppadeild Útivistar fór helgina 6. - 8. febrúar á Hveravelli um Langjökul. Hátt í tuttugu bílar voru með í för, 36" til 49" bílar. Komið var að kvöldi föstudags í Húsafell þar sem var gist. Næsta morgun var lagt af stað í björtu og stilltu veðri og lofaði dagurinn góðu og gekk það eftir. Ekið var inn á Kaldadalsveg og þaðan að skálanum Jaka við vesturjaðar Langjökuls. Þar stigu menn úr bílum spörkuðu í dekk og þess háttar og svo náttúrulega hleyptu þrýstingnum í þeim niður í 3 pund eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Færið á jökli var sæmilegt og ekki eins þungt og menn bjuggust við eftir langvarandi kuldaskeið sem oft þurrkar og frystir mestallan rakann úr snjónum sem gerir það að verkum að hann loðir illa saman sem aftur gerir púðurfæri þar sem snjórinn þjappast illa og þyrlast upp. Slíkt var ekki mjög áberandi á jöklinum þó svo að slíkt yrði síðar í ferðinni. Einnig sest nýfallinn eða nýlegur snjór af sjálfu sér seint og illa í miklum kuldum. Það háði hópnum reyndar meira að vissu leyti hvað bílarnir í ferðinni voru margir, misþungir og með mismikla drifgetu. Stærstu, þyngstu og drifmestu bílarnir voru framarlega og brutu niður mestallan burð í snjónum og hrærðu honum upp með djúpum förum þannig að þeir bílar sem á eftir komu gátu ekki nýtt sér för þeirra sem fremst fóru sem skyldi. Eftir akstur að Þursaborg var ekið upp á hæðina fyrir ofan Péturshorn og að Fjallkirkju. Það einkennilega við örnefnið Péturshorn er að það er ekki gamalt nafn heldur nefnt eftir núlifandi og virkum fjallamanni, af lífi og sál, Pétri Þorleifssyni. Ekki tókst að komast upp brekkuna á móts við Fjallkirkju að skála JÖRFA . Til þess var hún of brött í því færi sem þarna var. Litlu breytti þó Ford F350 á risa dekkjum reyndi við brekkuna. Eitthvað voru snjóalög öðruvísi eða jökullinn breyttur frá því að sá sem skrifar þennan texta var við Fjallkirkju síðast, árið 1994, á jeppa. Þá var brekkan í minningunni bæði styttri og ekki nærri eins brött og áreynslulaust var að keyra upp þó svo að farartækið væri bæði dísil og túrbínulaust. Það var reyndar að vori sem gæti spilað inn í öðruvísi aðstæður en núna enda á eftir að bæta mikið í snjóalög sem breytir landslaginu þangað til næsta vor. Síðan hélt hópurinn niður að Hrútfelli vestanverðu um Kirkjujökul. Minnir að ég hafi séð þennan sama Kirkjujökul nefndan Sólkötlujökul á einhverju korti. Eftir stutt stopp við skála F.Í. við Þverbrekknamúla var ekið yfir Fúlukvísl á ís og síðan yfir Kjalhraun meðfram Strýtum að Hveravöllum þar sem potturinn beið. Snjórinn var það mikill í hrauninu að vel var hægt að aka yfir það en það hefur almennt ekki verið hægt held ég á undanförnum árum. Færið í hrauninu var þyngra og meira púður en á jöklinum svo skrýtið sem það nú var. Daginn eftir var ekin svipuð leið til baka að Þverbrekknamúla og þaðan inn á Kjalveg. Veður var áfram gott en skýjað að mestu þann daginn. Af Kjalvegi var beygt inn að Skálpanesi og þaðan að austustu Jarlhettu. Við Skálpanes var drullu þungt færi. Harðfennislag efst sem brotnaði undan bílunum og sukku þeir síðan niður í þurran púðursnjó undir harðfennislaginu sem þjappaðist mjög illa. Þar stóðu þeir sig vel konunglegu jepparnir frá Solihull á 44" og 38" dekkjum enda nokkuð léttir hásingabílar. Ekta 44" DC dekkjarfæri. Aftur var ekið að skála í eigu F.Í. Í þetta sinn við Hagavatn. Frá skálanum var stefnan tekin á línuveginn fyrir neðan Mosaskarð. Áin Farið var opin en ekki mikið í henni og lítið mál að aka yfir hana fyrir vestan skálann. Brekkan upp Mosaskarð var auðveld og síðan var línuveginum fylgt niður að Uxahryggjavegi fyrir vestan Skjaldbreið og þaðan niður að Þingvöllum. Komið var í bæinn á nokkuð kristilegum tíma eða um átta eða níuleytið.