Við héldum á nokkrum bílum í dagstúr á Gímsfjall, fyrirvarinn að þessari ferð var nokkuð stuttur þannig að ekki komust allir með sem hefðu viljað. Haldið var úr bænum kl. 7:00 áleiðis í Hrauneyjar, en þar safnaðist hópurinn saman, alls sjö bílar. Í ferð voru Matti, Maggý og börn á LC90, Heimir, eiginkona og sonur á Patrol, Bjössi og Jóna á Patrol, Bjarni og félagi á Hilux, Jón Ebbi og Jón Snæland á Land-Rover, Lúffi á Patrol og Óskar, Sigrún og Grétar á Datsun.
Frá Hrauneyjum var farið (kl 9:20) áleiðis í Jökulheima en vegurinn þangað má heita auður og þurr, áin við styttingin er enn á sínum stað en er ekki til trafala, nær varla upp í miðja felgu. Smá stopp var gert við Jökulheima en síðan haldið áfram á jökul. Tungnaáin var eins og friðsæll bæjarlækur og vorum við komin á jökulröndina kl 11:10. Veðrið var með besta móti nánast al-blár himinn og vindur mun hægari en á leiðinni í Hrauneyjar. Jökullinn var harður og sléttur svona hálfa leið upp Tungnaárjökul en upp úr því ósléttari en áfram harður, (hraðinn datt niður í 35 km/klst). Farið var upp á Háubungu og þaðan inn á Grímsfjall og við vorum við skálana þar kl. 13:00. Fjölmennt var á Grímsfjalli en Jöklarannsóknarfélagið var þar í vinnu og vísindaferð. Eftir að hafa bragðað á nestinu og skoðað aðstæður var haldið til baka og stefnan sett á Pálsfjall og þaðan áfram niður af jökli og vorum við Jökulheima kl 16:00.
Breiðbakurinn varð fyrir valinu sem heimleið og var ferðinni haldið áfram sem leið lyggur um Breiðbak og Faxasundsleið niður á Fjallabak-Nyrðri. Þaðan áfram í átt að Landmannalaugum, framhjá Bjallavaði, yfir Sigölduna og í Hrauneyjar var hópurinn kominn kl. 21:35.
Það óhapp varð hjá okkur að Hiluxinn valt í hliðarhalla á Fjallabaksleið, hann valt rólega heilan hring og á hjólin aftur. Slys voru sem betur fer engin. Hiluxin var yfirfarin og lagaður eftir mætti og síðan för haldið áfram. Það má til gamans geta að fjaðrirnar í þessum Hilux eru þær sömu og voru í Hiluxinum sem fór fram af Grímsfjalli hér um árið.
Það var síðan þreyttur en glaður ferðahópur sem var að tínast í bæinn undir miðnætti, eftir 17 tíma bíltúr.