Fórum frá Landvegamótum, Dómadalsleið inní Landmannalaugar á föstudagskvöldi og vorum komin þangað um kl. eitt. Ég náði að festa mig í brekku, niður í móti og stuttu síðar braut og bramlaði Sveinbjörn kokkur dempara og fleira undan bílnum sínum. Það var soðið og lagað á staðnum.
Á laugardagsmorgni rifu menn sig upp um morguninn og það var rúllað niður Eldgjá. Magni missti cruiserinn sinn niður um ís og tók verulega stund að ná honum upp aftur. Það var haldið áfram og seinna um daginn snerum við okkur við og um það leyti braut farastjórinn Magni þverstífuturn. Cruiserinn hans var skilinn eftir en það náðist í Einar Sól sem var á rúntinum nálægt Hrauneyjum og hann kom í hvelli með rafsuðupinna til viðgerða. Nokkrir gemlingar fóru svo um kvöldið eftir matinn og suðu þetta saman og komu til baka með bílinn. Tryggvi gerði góðan díl við Landsbankamenn sem dúkkuðu upp á laugardeginum á þremur bílum. Það var farið heim á sunnudeginum um Hrauneyjar í blindhríð og fjöri þar sem sást varla milli bíla. Við tókum Landsbankamenn með okkur í Hrauneyjar þar sem skildu leiðir og menn rúlluðu sína leið. Þetta var þvílíkt skemmtileg ferð.