Setrið 27/2-01/03 2009-03-06
Lagt var af stað úr Reykjavík á föstudagkvöld um kl. 19.00, Maggi á 44´ Explorer og Hjalti á 38´ Patrol. Fyrr um daginn hafði Stefán á 42´ Musso, lagt í hann. Á leiðinni slógust þeir Stefán á 44´ Pajero og Reynir á 38´ 80 Crusier í för með Stebba, en þessir bílar sáu um að ryðja leiðina upp í Setur, og eiga þeir heiður skilinn, þar sem færið var talsvert þungt. Að Geysi í Haukadal slógst Gunnlaugur á 38´ Grand Cherokee, (jómfrúarferð á Cherokee), í för með Hjalta og Magga. Hér eftir mun hann ætíð gegna nafninu Gulli Grand, því hann ku víst framleiða þessa tegund bifreiða á planinu heima hjá sér. Þegar við vorum komnir langleiðina í Kerlingafjöll kom í ljós að drifloka hafðið gefið sig hjá Hjalta. Höfðu Grandarinn og Maggi orð á því að bíllinn hjá Hjalta hefði verið með afturendann nokkuð lausan, en Hjalti keyrði nokkuð létt þar sem nokkuð var um liðið síðan kallinn hafði komist á fjöll í púðrið góða. Ferðin í Setrið gekk vel og vorum við komnir þar um kl. 02.00. Laugardagurinn bauð okkur góðan daginn með ægifögru veðri. Þó var nokkuð lágskýjað, sem skapaði smá vandamál fyrir mig sem hafði fengið það hlutverk að sjá um myndavélina í þessari ferð og var mér nokkuð í mun að mér tækist að taka nokkra góðar myndir, en birtan við þessi skilyrði gerir það að verkum að landið virðist vera svo til slétt og renna síðan saman við himinn. Haldið var í Innri Kisubotna til þess að kanna aðstæður, því hugmyndin var að fara Klaksleið heim á sunnudeiginum. Hreint út sagt mögnuð náttúrfegurð. Er ferð í Kisubotna lauk ákváðu Stebbarnir, Reynir og Gulli Grand að fara til móts við Davíð á 38´ 90 Crusier, restin af hópnum fór í Setrið en Gulli Grand og Maggi komu fljótlega aftur. Hjalti og Gulli Grand ákváðu síðan að fara í Nautöldu. Var það æðisleg ferð þar sem Gulla Grand tókst að festa sig rækilega í krapa, það tók okkur um 1 klst. að losa bílinn, sem tellst víst ekki mikið hjá þeim mönnum sem hafa lennt í því að FESTA bíla sína. þetta var eina alvöru festan í túrnum. Á laugardagskvöldið var slegið upp mikilli veislu undir dyggri stjórn Stefáns sem ku víst hafa þann starfa að selja Vestmannaeyjingum veitingar gegn vægu gjaldi. Sunnudagurinn heilsaði okkur með góðu veðri en litlu skyggni. Vel gekk að koma hópnum af stað og var ákeðið að aka um Hnífárbotna, Sóleyjarhöfða, inn á Kvíslárveituveg og Búðarháls. Ferðin sóttist vel þrátt fyrir lítið skyggni og talsverða snjóblindu á stundum. Stefán á Musso varð fyrir því að keyra á stein og missa allt loft úr öðru framdekkinu (hélt að það væri rifið)og skekkja það aðeins, héldu menn að hásing hefði bognað, en sú var ekki raunin þegar betur var að gáð er til byggða var komið. Það má segja að þessi frábæri túr hafi endað með hvelli, því þegar Gulli Grand var að dæla bensíni á milli tanka sprakk annar aukatankurinn hjá honum. Það má segja að hvellurinn hafi verið punkturinn yfir i-ið á frábærum túr, punktur sem við hefðum viljað vera án. Þarna skildu leiðir, því Eyjapeyjar þurftu að ná í flug og Herjólf og féllust menn að lokum í faðma, þökkuðu túrinn og lögðu á ráð um annann túr eins fljótt og auðið er. Takk fyrir mig.