Helgina 18. -19. mars 2006 fór jeppadeild Útivistar í skála félagsins við
Strút á Mælifellssandi. Upphafleg ferðaáætlun var sú að lagt yrði af
stað úr bænum á föstudagskvöldi. Gist í nágrenni Skóga og
haldið upp á Mýrdalsjökul á laugardagsmorgni. Ekið þvert yfir hann
niður að Mælifellssandi og í Strútsskála. Heim á sunnudegi og leiðarval þá eftir aðstæðum. Þegar líða fór
að helgi fréttist af mjög erfiðum aðstæðum á jöklinum frá ferðalöngum.
Brotin drifbúnaður í jeppum, affelgarnir og þess háttar. Hætt var við að
svo stöddu að fara yfir jökulinn á leið í Strútsskála og fara heldur upp úr
Fljótshlíð eða um Öldufellsleið og bíða fram á sunnudag eftir betra færi
og reyna við jökulinn á bakaleiðinni. En þegar til kom hafði færðin batnað
mikið á jöklinum. Var því haldið við fyrri áætlun að mestu leyti. Lagt var að
stað úr Reykjavík á laugardegi og brunað austur að Sólheimahjáleigu og þaðan
upp á Mýrdalsjökul. Ekið var í blíðskaparveðri, sól og góðu skyggni mest alla
leiðina á jöklinum. Snjórinn var blautur og þungur í sér en þjappaðist vel og var gott grip í honum
fyrir gróf dekk. Meðalþungur bíll á 35" dekkjum hefði getað keyrt þvers og kruss um jökulinn
með sæmilegu móti þó svo að hraðamet yrði tæplega sett. Bæjarlækurinn við
Strútsskála var pínu strembinn yfirferðar og þurfti að sneiða niður brattar
og harðar snjóskarir með járnköllum og skóflum góða stund svo hægt væri
að fara yfir. Reyndar var furðu mikill snjór á öllu svæðinu og enginn krapi
sjáanlegur. Var komið snemma í skála og höfðu menn ekki spólað nóg um
daginn og sportuðu sig í brekkum um eftirmiðdaginn í tilraun að komast að Strútslaug.
Gekk það ekki eftir og var farið að Brytalækjum í staðinn. Framhásing í einum bílnum bilaði stuttu
eftir brekkurnar og sneri sá bíll aftur í skála til bráðabirgða viðgerðar. Daginn eftir var farið í Hvanngil
og síðan sömu leið til baka yfir jökulinn.