Ég fór með pabba mínum ásamt Fjallaklúbbnum Babú (sem er Jeppafélag Slökkviliðsins á Höfuðborgarsvæðinu) upp á Vatnajökul í maí 2006. Það var gríðarlega gaman og byrjuðum við á því að fara að Jökulheimum og þaðan upp á Vatnajökul. Við fengum ömurlegt veður þegar við vorum á leið upp á jökul en þegar við vorum komnir í ágæta hæð þá var allt heiðskírt og flott og hægt var að sjá kílómetra í kringum sig. Færið var fínt en frekar mikið hoss allan tímann en það var í lagi. Ekki var mikið um festur (enda allir prýðisbílstjórar á vel útbúnum bílum). Við keyrðum til 3 um morgun að Hvannadalshjúki eftir stutt stopp í Grímsvötnum. Við lögðum okkur við rætur hjúksins í 2 tíma því við vorum að bíða eftir gönguhóp sem við höfðum ákveðið að hitta. Uppi á toppnum buðum við hópnum upp á heitt kakó. Svo splittaðist hópurinn (5 bílar) þar sem ég og pabbi og Gestur á Musso fórum niður af jöklinum og heim en hinir fjórir bílarnir fóru að Grímsvötnum og gistu þar. Skemmtileg ferð yfir allt.