Fimmtudagsmorgun 17. maí fórum við á 18 bílum upp frá Skálafellsjökli og beint í Snæfellsskála þar sem við áttum ágæta nótt. Færið var fínt en skyggnið lítið svo engir útúrdúrar voru teknir á leiðinni. Héldum svo áfram á föstudeginum aftur upp á jökul og svo niður af Brúarjökli austan við Kverkfjöll og þaðan í bað í Hveragili. Ókum þaðan áfram norður fyrir Kverkfjöll í Sigurðarskála þar sem við gistum tvær nætur. Á laugardeginum var reynt við Löngufönn en hún reyndist ófær vegna mikillar lausamjallar og afar lélegs skyggnis. Skoðuðum íshellinn og leituðum að leið yfir ána og upp á Dyngjujökul. Á sunnudagsmorgni var svo loksins komin rjómablíðan sem búið var að bíða eftir og þá var þrusað upp Dyngjujökul og áleiðis í Kverkfjöll, en snérum þaðan þegar veðrið fór að versna og keyrðum í blindu á Grímsfjall. Eftir stutt stopp þar var svo haldið niður í Jökulheima og þaðan beint í bæinn. Frábær ferð án nokkurra stórvandræða.