Jæja þá var komið að því að Gamli Gráni þurfti í vélarupptekt og ákvað ég að rífa mótorinn úr og svo heddið af til að geta fundið bilunina sem var búin að hrjá okkur síðan í vor, en þá fór heddið að leka og það var skipt um það þá strax en gangtruflanirnar breyttust ekkert við það. Þá var ákveðið að skipta um spíssa en ekkert breyttist heldur þá. Voru þá flestir sérfræðingar sem ég talaði við orðnir sammála um að olíuverkið væri bilað og því var það tekið úr og sent í upptekt og þrátt fyrir að margt hafi verið komið á tíma þar þá breyttist ekkert við það. Nú voru góð ráð að verða dýr, meira að segja mjög dýr og vandséð að bilunin gæti verið annars staðar en í kjallaranum og grunaði mig orðið ískyggilega að stimpilstengur hefðu bognað síðastliðið vor meðan heddið lak þ.e. að lekið hefði ofan í sílendrinn og stöngin bognað við næstu gangsetningu. Það reyndist vera rétt hjá mér og fremsta stöngin var 1,04 mm styttri en þær tvær öftustu, af hverju stöng númer tvö var líka aðeins bogin þ.e. um 0,5 mm veit ég svo sem ekki alveg um en hún gæti verið búin að vera þannig lengi. Það er alveg öruggt að ég hefði getað sett í hann tvær nýjar stengur og skrúfað svo gamla dótið saman aftur en okkur þótti það ekki ráðlegt þar sem þessi mótor var ekinn rúmlega 300.000 km. þar að auki sáust rispur í einum sílendranum sem hefði sennilega þýtt borun, þá var endanlega tekin ákvörðun um að kaupa nýja blokk með stimplum og sveifarás og færa svo allt hitt á milli.