Mætt var við Select, voru það 20 bílar sem mættu þar og var lagt af stað á tilsettum tíma og farið til Þingvalla. Þar var stoppað og farið yfir ferðaplanið og var vitað til að einn bíll mundi bætast við, við gjábakkann. Lagt var af stað, keyrt upp á Lyngdalsheiði og inn á gjábakkaleið, þar beið bíllinn eftir okkur. Þar hleyptu menn úr dekkjum og lagt strax af stað í brekku sem var með töluvert af snjó og kom í ljós að menn urðu að fara niður í 6 pund. Voru það eingöngu stóru bílarnir sem hleyptu úr dekkjum, ekki ég. Síðan var haldið áfram og gekk ferðin nokkuð vel miðað við hvað færið þyngdist jafnt og þétt. Fór svo að menn fóru að festa sig lítillega en kom ekkert að sök fyrir stærri bílana. Fór svo að ég var hættur að ná niður úr förunum, sama sem sestur á kviðinn og þá ákveðið að settur yrði spotti í bílinn hjá mér og ég dreginn. Var það þannig að ýmist var ég losaður eða hnýtt í næsta klukkutímann. Þegar við vorum komin langleiðina inna Skjaldbreið þá var tekin kaffpása sem var frekar stutt hjá mér þar sem ég var rúmum hálftíma á eftir öllum hópnum. Þeir sem hjálpuðu mér við að komast áfram voru Stefanía og Óli og var ég eins og í gjörgæslu á milli þeirra. Eftir pásuna var aftur hnýtt í mig og dreginn góðan spöl þar til að við töldum að mér væri óhætt að vera laus við spottann. Hér gleymdist að tala um veðrið, rigning var í byrjun ferðar til að verða tvö, og þá stytti upp og var mjög þægilegt veður, sól rúmar næstu þrjár klukkustundir. Svo var keyrt að Hlöðufelli og þar var stoppað og að sjálfsögðu var ég hálftíma á eftir áætlun og þar var beðið eftir mér. Stefnan tekin niður á Línuveg, rétt er að geta þess að enn einn bíll bættist í hópinn við Skjaldbreið, bílar sem voru í þessari ferð voru allir fyrir utan einn á 35 og 38" dekkjum og er talan nokkuð jöfn þar á milli (11/11) þar sem ég var minnsti bíllinn á minnstu dekkjunum þurfti ég að sjálfsögðu mestu aðstoðina. Eftir að við vorum komnir aftur niður á línuveginn var komin mikil þoka og ferðin hafði dregist á langinn svo menn bættu í dekkin og drifu sig að keyra niður á kjalveg, að vísu var talað um að það væru tvær ár á leiðinni og virtist einhver vatnsmýri vera í þeim sem kom sér ekki að sök fyrir stóru bílana en fundu aðeins fyrir seinni ánni, gerði mér ekki grein fyrir því hvernig ár þetta voru fyrir þoku og æddi yfir. Eftir að komið var út á Kjalveg fóru allir bílar í bæinn nema tveir sem var Stefanía og Barbara og ákváðu þær að fara uppí Árbúðir og hitta klakann og stebba trúð og gistu þar yfir nótt. Ferðalok.