Fórum frá Vopnafirði um kl. 9 annann í páskum. Fórum inn Hofsárdal og upp á Þorbrandsstaðaháls rétt innan við bæinn Þorbrandsstaði. Fórum inn hálsinn inn að Einarsstaðafjalli, framhjá Hraunfellshnjúk, inn Hraunfells part og inn með Tunguá og inn í gangnakofa sem stendur undir Geldingarfelli og er kallaður Geldingur. Þaðan var farið innfyrir Geldingafellið og milli þess og Skálafells framhjá Stórhólma- og Langólma vatni og áfram yfir í kofann Mel sem stendur skammt frá Hofsá. Áfram var haldið norður yfir Hofsá og þjóðveg 85 og út Kinnalandið og Banatorfur, norður fyrir Súlendur, út Laka og Leirvatnskvos og að Arnarvatni en þar er einn kofinn enn sem við stoppuðum í og fengum okkur kaffisopa. Svo var haldið út með Selá og yfir hana við Aðalból sem stendur undir Mælifelli, og var ætlunin að fara norður fyrir Kistufell en vegna þoku var hætt við það og farið niður í Selárdal. Á leið út Selárdalinn þurftum við að krækja fyrir nokkur gil sem voru ófær en niður komumst við. Til móts við Fagurhól datt okkur í hug að fara yfir Selá, en það er ekki víða hægt að fara yfir hana og gekk það vel. Menn fóru ýmist yfir á snjóbrú eða skelltu sér í ánna. Stoppað var við Fagurhól en síðan haldið yfir hálsinn og niður hjá Ljótsstöðum í Vesturárdal þar sem við komumst á veg og kláruðum túrinn um kl. 19.
Í þessari ferð voru: Björn og Sirrý á 42" LC 60, Ingi og Steini á 38" Pajero, Valdi á 38" Patrol, Garðar á 36" Taft og Stebbi Grímur og Ingvar á 35" Súkkubíl.