Setrið, blað um jeppamennsku og ferðafrelsi

Í dag fimmtudaginn 8. mars dreifðum við blaðinu okkar Setrinu í 90.000 eintökum í hvert hús á höfuðborgarsvæðinu og til áskrifenda Moggans um land allt.   Að auki fá allar deildir samtals um 5.000 eintök til eigin dreifingar.

Setrið er 8 bls. í dagblaðsbroti og fjármagnað með sölu auglýsinga. Fjölmargir sinntu kalli ritnefndar og sendu okkur greinar og vil ég fyrir hönd klúbbsins hér með þakka kærlega fyrir þær. Sakir plássleysis komust þær þó ekki allar fyrir í blaðinu að þessu sinni en bíða birtingar í næsta blaði.

Í Setrinu er að finna fjölbreytt efni m.a. kynningu á klúbbnum, sagt er frá samstarfi við Landgræðsluna og sjálfboðavinnu félagsmanna varðandi náttúruvernd og sagt er frá starfi Ey4x4.  Þá er að finna ítarlega grein um Hvítbók og aðra grein um baráttuna fyrir ferðafrelsi í Vatnajökulsþjóðgarði.  Þá eru greinar um skálann okkar Setrið, Litlunefnd og leiðarlýsing um Þingmannaheiði á Vestfjörðum.

Ég vona að félagsmenn kunni að meta þetta framtak okkar en stjórn Ferðaklúbbsins telur afar mikilvægt að efla kynningar- og áróðursstarf út á við, ekki síst um baráttumálin sem á okkur brenna þessa stundina.

F.h. stjórnar,

Hafliði S. Magnússon formaður

Skildu eftir svar