1. grein Félagið heitir “Jeppavinarfélagið Suðurnesjadeild Ferðaklúbbsins 4x4” og hefur aðsetur í Reykjanesbæ. Jeppavinarfélagið er samtök um ábyrga ferðamennsku á hálendi Íslands og búnað fjórhjóladrifsbifreiða.
2. grein Markmið félagsins eru: Að standa vörð um ferðafrelsi. Að ná til sem flestra sem áhuga hafa á ferðalögum um landið á fjórhjóladrifsbifreiðum. Að gefa gott fordæmi um umgengni og verndun landsins með jákvæðri eftirbreytni og umræðu um náttúruvernd. Að gæta hagsmuna félagsmanna varðandi búnað fjórhjóladrifsbifreiða og annað er lýtur að fjórhjóladrifsbifreiðum og ferðalögum í samráði við viðkomandi yfirvöld. Að efla þekkingu félagsmanna á öllu því er við kemur útbúnaði fjórhjóladrifsbifreiða og ferðalögum um byggðir og óbyggðir landsins. Að efla tengsl og kynni félagsmanna.
3. grein Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Hann skal haldinn árlega í maí mánuði. Fundurinn skal boðaður félagsmönnum með auglýsingu á forsíðu á vefsíðu félagsins með minnst sjö daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina fundarefni svo og
fjárhagslegar tillögur, sem ætlast er til að bornar verði undir atkvæði. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir félagar sem hafa staðið full skil á gjöldum til félagsins. Hinir sömu hafa einnig atkvæðisrétt á aðalfundi. Á dagskrá aðalfundar skulu vera venjuleg aðalfundarstörf, þ.e:
1. Setning fundar og dagskrá kynnt.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnarinnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
4. Umræða um skýrslu stjórnar.
5. Skoðaðir reikningar lagðir fram og skýrðir.
6. Umræða um reikninga og þeir bornir upp til samþykktar.
7. Skýrslur nefnda, ef kjörnar hafa verið.
8. Lagabreytingar frá stjórn, nefndum eða félagsmönnum.
9. Kjör stjórnar, varamanna og fastanefnda.
10. Kjör Skoðunarmanna.
11. Önnur mál.
12. Fundarslit.
4. grein Rétt boðaður aðalfundur er löglegur, án tillits til fundarsóknar. Einfaldur meirihluti atkvæða á fundinum ræður úrslitum nema um annað sé getið í lögum þessum. Stjórn getur boðað til aukaaðalfundar ef hún telur þess þörf. Um boðun aukaaðalfundar, dagskrá og önnur fundarsköp gilda sömu reglur og um venjubundna aðalfundi félagsins.
5. grein Stjórn félagsins skal skipuð fimm stjórnarmönnum: formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum. Ár hvert skal formaður kosinn sérstaklega til eins árs. Auk þess skulu kosnir tveir meðstjórnendur til tveggja ára. Kjósa skal einn varamann fyrir hverja tvo meðstjórnendur sem kosnir eru á sama aðalfundi. Kosningar skulu vera skriflegar, sé þess óskað. Meðstjórnendur verða þeir tveir sem flest atkvæði hljóta. Varamaður er kosinn sérstaklega. Forfallist formaður skal ritari taka sæti hans, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Formaður getur boðað varamenn á stjórnarfundi, þegar þess er talin þörf. Varamenn í stjórn skulu hafa aðgang að fundargerðum stjórnar.
6. grein Skoðunarmenn eru tveir og skulu þeir kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Kosning skal fara fram skriflega, sé þess óskað. Hlutverk skoðunarmanna er að yfirfara bókhald félagsins og gæta þess að farið sé eftir viðurkenndum bókhaldsaðferðum og viðteknum venjum um gerð ársskýrslu.
7. grein Stjórn félagsins kemur fram fyrir hönd þess milli aðalfunda og ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Stjórnin mótar starfsemi félagsins milli aðalfunda og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Samþykki aðalfundar þarf þó fyrir ráðstöfun fasteigna svo og fyrir fjárskuldbindingum og ráðstöfun lausafjármuna sem nema hærri upphæðum en tekjum yfirstandandi árs. Slíkar fjárbeiðnir skulu berast stjórn minnst einum mánuði fyrir aðalfund. Stjórn getur boðað til auka aðalfundar eftir þeim reglum sem um hann gilda, ef samþykki félagsmanna þarf fyrir ráðstöfun fjármuna milli aðalfunda.
8. grein Innan félagsins og undir handleiðslu stjórnar starfa eftirfarandi fastanefndir sem fara með helstu málefni tengd starfsemi félagsins:
Skálanefnd Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með skála félagsins s.s. byggingu, viðhaldi, rekstri og útleigu.
Umhverfisnefnd. Hlutverk nefndarinnar er að sinna verkefnum sem tengjast umhverfismálum og hagsmunum klúbbsins og félagsmanna hans gagnvart hlutaðeigandi yfirvöldum, ásamt öðrum verkefnum er varða umhverfismál innan og utan klúbbsins.
Skemmtinefnd hefur hún umsjón með skemmtunum á vegum félagsins.
Þorrablótsnefnd sér um skipulagningu árlegs þorrablóts og umhald við blótið.
Sýningar og kynningarnefnd. Nefndin sér um skipulagningu og umhald sýninga bíla félagsmanna og kynningu á starfi félagsins út á við.
9. grein Stjórn félagsins hefur heimild til að skipa nefndir til ákveðins tíma til að vinna að verkefni eða verkefnum er tengjast starfsemi félagsins.
10. grein Allar nefndir skulu kjósa sér formann og tilkynna stjórn hver hann er. Formaður nefndar er tengiliður nefndarinnar við stjórn félagsins og ber ábyrgð á að koma upplýsingum til og frá nefndinni og vera fulltrúi hennar. Segi maður sig úr nefnd, eða ef ekki næst að fullmanna nefnd á aðalfundi, skulu sitjandi nefndarmenn gera tillögur um staðgengil, sem mun starfa með nefndinni fram að næsta aðalfundi. Tillagan skal send stjórn félagsins, sem tekur ákvörðun um skipun staðgengils á stjórnarfundi. Segi allir nefndarmenn sig frá störfum er það á ábyrgð stjórnar að skipa staðgengla fram að næsta aðalfundi, en þá skal kjósa nýja nefndarmenn ef um fastanefnd er að ræða.
11. grein Félagi getur hver sá orðið sem áhuga hefur á markmiðum félagsins samkvæmt 14 grein laga Ferðaklúbbsins 4x4. Inntökubeiðni skal vera skrifleg og send stjórn félagsins. Hver félagi getur skráð einn aukafélaga sem hefur sama lögheimili og aðalfélagi án sérstakrar greiðslu fyrir hann. Aukafélagar hafa sömu réttindi og skyldur og aðalfélagar að því undanskyldu að þeir hafa ekki atkvæðisrétt á aðalfundi og deila póstsendingum frá klúbbnum með aðalfélaga.
12. grein Stjórn félagsins hefur ein heimild til að standa í vegi fyrir því að einstakir aðilar fái aðild að félaginu og getur ein vísað félagsmanni úr félaginu, ef sýnt þykir eða sannað að framkoma viðkomandi samræmist ekki markmiðum félagsins. Sé manni meinuð aðild að félaginu getur hann borið mál sitt undir aðalfund félagsins og hefur aðalfundur einn rétt til að breyta ákvörðun stjórnar.
13. grein Stjórn félagsins getur lagt til að kjörnir séu heiðursfélagar þeir sem leyst hafa af hendi mikilsverð störf eða unnið sérstaklega mikið fyrir félagið. Kjör heiðursfélaga skal staðfest af aðalfundi.
14. grein Reikningsár félagsins er frá 1. apríl til 31. mars ár hvert. Félagsgjöld gilda fyrir reikningsár félagsins og gjaldagi þeirra skal vera 1. nóvember og eindagi skal vera eigi síðar en 31. desember ár hvert. Sé félagsgjald ekki greitt á eindaga missir félagi atkvæðisrétt í málefnum félagsins. Hafi félagsgjald ekki verið greitt í heilt starfsár fellur félagi af félagaskrá. Þeir félagsmenn sem náð hafa 67 ára aldri og verið skráðir félagsmenn í fimm ár þar á undan fá fría aðild að klúbbnum.
15. grein Fjármunum félagsins skal eingöngu varið til starfsemi þess og til málefna tengdum hagsmunum þess.
16. grein Öllum er heimill aðgangur að fundum félagsins, hvar sem er á landinu og hafa þeir þar málfrelsi og tillögurétt.
17. grein. Breytingar á lögum þessum má eingöngu gera á aðalfundi. Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn félagsins, frá fullgildum félagsmanni, í síðasta lagi 15. apríl og skulu þær kynntar í aðalfundarboði. Til lagabreytinga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða og telja auð atkvæði með í fjölda greiddra atkvæða.
18. grein. Félaginu verður því aðeins slitið að fyrirfram hafi skriflegt fundarboð verið sent til allra gildra félagsmanna, um að boðað sé til félagsfundar og að skýrt komi fram að fyrirhuguð sé kosning um félagsslit. Kosning skal vera leynileg og þarf samþykkt 2/3 hluta fundarmanna. Fjármunum félagsins skulu færðir í vörslu Ferðaklúbbsins 4x4 í vörslu til þeirra ára sem slitafundur ákveður og færðir félaginu aftur ef félagið er endurvakið. Ella skal þeim fjármunum færðir Ferðaklúbbnum 4x4 til eigna.
Samþykt á aðalfundi 5/5-2017
Lög Jeppavinafélagsins
Who is online
Users browsing this forum: No registered users and 1 guest