Fórum í feðgaferð á Grímsfjall með viðkomu í Pálsfjalli. Lögðum upp frá Jökulheimum snemma á sunnudagsmorgni í frábæru veðri, sól+logn+3°C frosti. Tungnaá var ekki til vandræði og mjög gott færi upp í ca. 1100 m en þá þyngdist færið verulega og hraðinn fór niður í ca. 10-15 km/klst. Komum við í Pálsfjalli og vorum komnir á Grímsfjall um þrjúleytið. Hittum þar fyrir nokkra félaga sem voru nýlega komnir á fjallið eftir 26 klst. ferð úr Jökulheimum en þeir höfðu hreppt leiðinda veður um nóttina sem ásamt smá bilunum og þungu færi tafði för. Eftir stutta skoðunarferð um svæðið tóku við hefðbundin kvöldverk á fjallinu, þ.e. eta lambalæri og fara í gufuna. Gott ef ekki voru nokkrir kaldir með. Seinna um kvöldið komu fleiri bílar og var fjallið fullmannað um nóttina. Daginn eftir var komið skítviðri og lítið annað að gera en að drífa sig niðrúr aftur. Gekk ferðin niður að mestu vel þrátt fyrir þungt færi.