Ferðast á fjöllum

Það er stórkostlegt að ferðast á hálendi Íslands. Náttúran er óviðjafnanleg og áskoranir við hvert fótmál og slóða. Náttúran tekur á móti ferðalöngum í öllu sínu veldi og blíðu. Ferðafélagarnir skipta miklu máli en ekki síst það að ferðin sé vel heppnuð. Það er það síðastnefnda sem sem þessi grein tekur fyrir, undirbúningur og skipulagningu þess að ferðast á fjöllum.Ferðaskipulagning byggir á að grundvallar forsendur ferðar séu í lagi. Farartæki, ferðaútbúnaður og þekking eða reynsla á viðfangsefninu. Einnig spilar inn í val á ferðafélögum og samvinna um skipulag ferðarferðabúnaðar, áætlana og leiðarvals.

Þetta getur verið meira en að segja það, menn eru sumir heilu árin að koma útbúnaði og farartæki í gott horf til ferða.

Hér fyrir neðan er stillt upp leiðbeiningum um undirbúning og skipulagningu ferða.

Í þessum texta er fjallað um það sem reynslubolti myndi kalla einfaldari eða léttari ferðir. Efnið á mest við þá sem sem skipuleggja eða taka þátt í slíkum ferðum.

Skipulagning sumarferða

Í þessu kafla er tekin fyrir ferðamennska að sumri og umfjöllun takmörkuð við jeppa og gönguferðir. Umfjöllun er skipt í „auðveldar“ leiðir og „erfiðari“ leiðir. Það hvað er auðvelt og erfiðara er ekki gott að skýra eða skilgreina nákvæmlega en stutt sagt eða í einföldu máli þá er átt við “auðveld” leið fyrir óbreyttan stóran jeppa og “erfið” leið fyrir samskonar bíl, alla jafnan. Þetta er síðan auðvitað afstætt fyrir bíltegund, bílstjóra og aðstæður.

Auðveldar leiðir

Dæmi um „auðvelda“ leið eru Fjallabak nyrðra, Sprengisandur, Arnarvatnsheiði, Básar í Þórsmörk eða aðra viðlíka staðir sem eru tiltölulega fjölfarnir, slóðar tiltölulega skýrir og alla jafna ekki djúpar ár að fara yfir – við góðar aðstæður. Hægt er að miða við að stærri óbreyttir jeppar geti alla jafna – við góðar aðstæður – farið þessar leiðir.

Hér verður strax að hafa stóran fyrirvara því auðveld leið getur á svipstundu breyst í erfiða. Ár, slóði og veður getur breyst eins og hendi er veifað. Umfjöllunin endurspeglar það að marki en forsenda fyrir allri ferðamennsku er kalt mat á aðstæðum og könnun á hvort þær aðstæður (veður, vatn í ám, árstími, ástand slóða) séu góðar, og í samræmi við skipulagningu og áætlun ferðar.

Mikilvægt er einnig að átta sig á að því að öryggismál, til dæmis hvernig keyrt er yfir vöð og á jöklum er sérstakt umfjöllunarefni.

Erfiðari leiðir

Hér er átt við „erfiðari“ eða snúnari leiðir eins og Gæsavatnaleið, Syðra fjallabak, Kverkfjöll, Gljúfurleit og viðlíka leiðir.

Hér verður aftur að hafa fyrirvara um að það er mjög teygjanlegt og breytilegt hvað „erfiðari“ þýðir. Þeir sem hafa farið Gæsavatnaleið oft telja hana kannski ekki erfiða í dag en þegar hún er ekin í fyrsta sinn verður hún að teljast nokkuð….snúin, við góðar aðstæður. Jafnvel hættuleg við góðar aðstæður – ef ekið er síðdegis á fallegum sumardegi.

Undirbúningur – auðveldari leiðir

Þessi kafli á við sumarferðir. Kaflinn á við bæði „auðveldari“ og „erfiðari“ ferðir, tiltekið er sérstaklega hvað á við um „erfiðari“ ferðir. Fjallað er sérstaklega um vetrarferðir.

1. Grunn atriði bílsins

Fara yfir að öll grunn atriði bílsins eru í lagi. Olía á vél, gírkassa, millikassa, bremsum, kúplingu. Ekkert vatn í olíu. Einnig olía á aukahlutum eins og glussalæsingum, lo-lo. Dekk í forsvaranlegu ástandi. Engar þekktar bilanir sem menn vonast til að “hangi” ferðina.

2. Breyttir bílar

Farið sérstaklega yfir hvort aukahlutir eða breytingar á bílnum séu í lagi. Það gerist stundum að breyttir hlutir gefi eftir eða virki ekki sem skildi eða að breytingar orsaki álag á aðra hluta bílsins. Þetta á til dæmis við lokur, loftdælur, læsingar, lolo og viðlíka. Reynslukeyrsla eða tilkeyrsla eftir breytingar er lykilatriði.

3. Fjarskiptatæki

GSM dugir orðið víða ef gengið er upp á fjöll og hæðir en VHF er það eina sem dugar vel við samskipti á milli bíla. Tetra og gervihnatta símar hafa sína kosti og galla.

Erfiðari ferðir :

VHF eða annarskonar talstöðvar eru nauðsynlegar á milli bíla.

4. Varahlutir

Allir almennir varahlutir þurfa alltaf að vera í öllum bílum, nýjum sem gömlum. Varadekk í lagi eða tappasett (til bráðabirgðaviðgerða á dekkjum), kaðall, startkaplar, topplyklasett, skrúfjárn með bitasetti, felgulykil, tjakkur/drullutjakkur, loftþrýstingsmælir, olía fyrir vél, viftureim.

Erfiðar leiðir:

Reimasett, olíur á vél, bremsur og kúplingu.

Reyndir ferðamenn hafa mikið lengri lista, byggða á reynslu og því sem hefur sýnt sig að vera nauðsynlegt fyrir viðkomandi farartæki. Sjá einnig sérstaka gátlista síðu, hér á vefnum.

5. Skipulag ferðar

Skipulag ferðar þarf að liggja fyrir vel áður en lagt er af stað. Ferðafélagar, farartæki, dagsetningar, matur, hverskonar fatnaður og gisting.

6. Leiðarval

Samþykkt leiðarval skal liggja fyrir áður en lagt er af stað. Þetta nær einnig til þess ef valmöguleikar eru á milli leiða, þá þarf að vera skýrt hvaða valmöguleikar eru.

Samþykkt leiðarval skal skilja eftir hjá fjölskildu eða tengdum aðilum.

Erfiðari ferðir :

Ættingjar, Landsbjörg eða viðeigandi eru látnir vita leiðarval og skipulag ferðar. Það skal vera fyrirfram ákveðið hvernig brugðist er við ef ferðamenn láta ekki vita af sér eftir ferðir. Ef farið er við erfiðari aðstæður skal láta vita af sér, með reglulegum hætti, í ferðinni. Til dæmis með Depill.is.

Einnig er hægt að skrá slíkt á vef http://www.safetravel.is/is/BL/Ferdaaaetlunin/.

7. Lagt af stað

Þegar lagt er af stað er óbrigðult gott ráð að láta að fara yfir gátlistana aftur, stuttu fyrir ferð. Þá koma ósjaldan fram atriði sem hafa gleymst eða þarf að klára.

Ekki leggja af stað ef atriði af ofangreindum lista eru ekki í lagi.

Bækur um ferðalög á hálendinu, útiveru og leiðir

Það hefur verið gefið út nokkuð af afbragðs bókum um ferðamennsku á fjöllum og við vísum hér í þær varðandi allt ítarefni og ítarlega umfjöllun um einstaka staði, leiðir, skála, tækni, ferðamennsku og annað. Þegar um faglega eða markvissa nálgun að ferðamennsku er að ræða er í þessum bókum allt það efni sem þarf til.

Listi yfir bækur:

Allt sem Jón G Snæland hefur gefið út.

Farið.

Bækur sem Arctic Trucks hafa gefið út.

(Sendið inn ábendingar um fleiri bækur)