Leiðir að Setrinu

Hér eru sýndar 3 leiðir að Setrinu.

Lýsing á leiðunum er fyrir neðan myndina

serur01

Græn leiðKerlingafjöll og Illahraun. Hægt er að aka Kjalveg, veg 35 upp að Kerlingarfjallaafleggjara. Ekið er sem leið liggur eftir vegi 35 að Gullfossi og þaðan áfram malbikið yfir Sandá. Jarlhettur, fjallgarður á vinstri hönd blasa við í fjarska og eru falleg sjón. Fljótlega eftir það endar malbikið og hleypa þá bílstjórar gjarna hluta af bæjarloftinu úr dekkjunum til að gera aksturinn þægilegri á leiðinni upp Kjalveg því vegurinn er oft harður og grófur, sérstaklega síðsumars. Ekið er síðan að Bláfelli upp Bláfellshálsinn og er þar stundum mjög holóttur vegur. Á hæsta punkti Bláfellsháls er varða ein mikil og segir sagan að allir þeir sem aka þarna yfir í fyrsta sinn eigi að koma með þrjá steina í vörðuna og verði það þá þeim til gæfu á leið þeirra um Kjalveg en þar sem nánast hvert einasta grjót kringum vörðuna hefur verið tínt í hana má benda ferðamönnum í þessari stöðu á að stoppa í brekkunni á Bláfellshálsi og taka með sér steina í vörðuna. Þegar veginum hallar niður af hálsinum blasir Hvítárvatn við, eitt stærsta vatn landsins. Vegurinn heldur áfram og fljótlega er ekið yfir brúna á Hvítá. Segja má að næsti áfangi séu Árbúðir, fjallaskáli þar sem rekin er greiðasala á sumrin. Tíðindalítið er að aka áfram að Fremriskúta og Innri Skúta, tveggja fjalla sem leiðin liggur við en fljótlega eftir það komum við að vegi f 347 og eftir honum ökum við í Kerlingarfjöll. Rétt í þann mund sem komið er að skálunum við Ásgarðsfjall er vegvísir á vinstri hönd sem vísar á Setrið. Þetta er grófur slóði sem er sumarfær flestum jeppum ef varlega er farið. Hann liggur norðanmegin við Loðmund og Snækoll og þaðan um Illahraun að skálanum og er vel stikaður þannig að enginn ætti að tapa honum. Kann að vera ógreinilegur í fyrstu yfirferðum á sumrin, einkum þó flæðurnar fyrir neðan Loðmund og skildu menn fara varlega um þær slóðir. Skaflar kunna að vera í vegstæðinu snemma sumars og er mikilvægt að ekki sé ekið meðfram hjá þeim heldur yfir þá svo ekki myndist slóðar utan vegstæðisins.

Fjólublá leiðKlakksleið. Hægt er að fara hjá bænum Tungufelli áleiðs upp afrétt Hrunamanna og er þá fljótlega komið að stuttum afleggjara á vinstri hönd sem endar í bílastæði. Þaðan er hægt að ganga að Gullfossi og er alveg ný upplifun að sjá hann frá austurbakkanum. Ekið er síðan sem leið liggur rúmlega 30 kílómetra leið uns komið er í Svínárnes. Þar er ágætur skáli sem oft er stoppað við og fengið sér kaffi. Sandá, sem ekið er yfir við skálann er ekki mjög djúp og er með traustum sandbotni og er allajafna ekki faratálmi. Þegar haldið er áfram er næst ekið yfir Rauðá, í henni er nokkuð grófur klapparbotn og skildu menn fara varlega þar yfir en áin er ekki vatnsmikil alla jafna. Sandsléttur taka við þegar Rauðá sleppir og hefur margur bílstjórinn sprett úr spori þar yfir en varast skildi sandgryfjur á þeirri leið sem geta komið ökumönnum óþægilega á óvart á ferðinni þar yfir. Að sléttunum slepptum kemur talverð hækkun í landslagið og nefnist þar Mosöldur. Vegurinn verður grófari yfirferðar. Fljótlega er komið að gatnamótum og skal þá beygja til hægri og eru menn þá komnir á hina eiginlegu Klakksleið. Ekið er um Rauðárhlíð og skiftast á grófir grjótkaflar og hægfara en inn á milli koma betri kaflar í slóðina. Komið er síðan þar sem hæðirnar Litli Leppir er á hægri hönd og Stóri Leppir á vinstri hönd og er ekið milli þeirra. Fljótlega eftir það greinist slóðin i tvennt og ef haldið er til vinstri er farið inn að Klakksskála og er sú leið nokkuð lengri en sú sem tekin er til hægri og er oftast nefnd Styttingur. Leiðin liggur síðan sunnan við Rauðkolla og áfram uns komið er í svokallaðar Sandbrekkur sem eru nokkuð brattar og liggja niður í Kisugljúfur. Þegar i Kisugljúfur er komið er ekið niður gilið og nokkrum sinnum yfir ána Kisu. Sandbleyta getur verið í álunum en alla jafna er gott að fara þarna yfir að sumarlagi og botninn yfirleitt traustur. Þegar síðasta álnum sleppir og Setuhraun tekur við er farið yfir moldarkafla sem getur verið varasamur ef rignt hefur mikið og skildu ferðalangar gæta varúðar þegar ekið er þar yfir. Setuhraunið er síðan gróft yfirferðar en vel stikað þannig að ekki ættu að vera vandræði að rata rétta leið. Þegar komið er síðan fyrir nes eitt blasir Skálinn við og leiðin greiðfær að honum.

Blá leið : Gljúfurleitarleið. Ekið er upp Þjórsárdal framhjá Hólaskógi uns komið er að vegvísi við Sultartangavirkjun sem vísar á Setrið. Þaðan er ekið upp á Sandafell og þegar niður af því fer að halla hinummegin blasir Sultartangalón við. Ekið er meðfram Sultartangalóni og inn á afrétt Rangæinga upp Gljúfurleit. Þar sem hin eiginlega Gljúfurleit tekur við er gangnamannaskáli þeirra Rangæinga. Haldið er áfram og skiftast á þokkalega góður vegur og seinfarnir grjótkaflar. Dalsá verður næst á vegi okkar og skildi aka hana af varúð. Grófur klapparbotn er í henni og eru djúpir pyttir sitthvorumegin við leiðina yfir en hún er stikuð og ef stikum er fylgt lenda menn ekki í vandræðum þarna. Ekið er síðan um svokallaða Flóamannaöldu uns komið er að Bjarnalækjarbotnum. Þar er gangnamannaskáli og er gott að setjast þar inn og snæða nesti sitt. Flótlega eftir að farið er frá Bjarnarlækjarbotnum er komið að Miklalæk sem alla jafna er ekki neinn farartálmi. Komið er síðan að ánni Kisu og getur hún verið varasöm, sérstaklega snemma sumar og geta verið í henni sandbleytur sem vont er að festast í. Ef ferðast er á óbreyttum jeppum ráðlegg ég bílstjórum að kanna vaðið vel áður en haldið er í hana. Ekið er síðan um Norðlingaöldu og nálægt Eyvafeni greinist vegurinn. Til hægri er ekið upp að Sóleyjarhöfða en við tökum afleggjarann til vinstri og ökum um Fjórðungssand. Á fjórðungssandi greinist leiðin enn og fer vestari leiðin sem er heldur styttri framhjá Stóru Setu en austari leiðin fer nær Hnífárbotnum og er ívið lengri. Báðar leiðirnar eru greiðfærar og sameinast aftur norðan við Stóru Setu í Setuhrauni. Eftir frekar grófan kafla gegnum Setuhraunið blasir skálinn við og er þá stutt í hann.

Hafa ber í huga að ….

Þær leiðir sem hér hefur verið lýst eru allar nokkuð vel stikaðar og hefur Ferðaklúbburinn 4×4 m.a. lagt í það vinnu og fjármuni í þeim tilgangi að það auðveldi ferðamönnum að halda sér í réttri veglínu. Með varkárni má fara þessar leiðir á óbreyttum jeppum að sumarlagi en 33 tommu breyttir bílar og yfir eru þó orðnir vel færir til að aka þessar leiðir. Við leggjum mikla áherslu á að veglínu sé haldið og ekki sé ekið utan við slóðana. Skaflar geta verið í veglínunni snemma sumars og vatn getur verið í vegstæði. Vatn þarf ekki að þýða að ekki sé hægt að halda veglínu og hvetjum við til þess að ekki sé ekið utan við veglínuna af þessum orsökum. Betra er að kanna botninn og sjá hvort í honum er nokkuð það sem þarf að óttast. Sama er með skafla, haldið veglínunni yfir skaflinn og akið ekki meðfram honum, það veldur því að ný för verða til. Ef ökumenn treysta sér ekki til þess að halda veglínu af einhverjum orsökum er betra og vænlegra fyrir alla að snúið sé við og reynt aftur síðar, þegar snjór er farinn og vegstæði er orðið þurrt. Munið að Ferðaklúbburinn 4×4 getur gefið góð ráð í svona málum og árlega eru farnar margar ferðir með nýliða í ferðamennsku á jeppum á vegum Litlunefndar klúbbsins þar sem reyndari ferðamenn miðla af sínum fróðleik til þeirra sem óreyndari eru.

Fjórar leiðir að Setrinu:

1651_f4x4-setrid_4xleidir.gdb (Garmin GDB skrá)
1651_f4x4-setrid_4xleidir.zip (GPX skrá)