Fórum á þremur jeppum í góðan rúnt síðustu helgina í september. Gistum í Hrauneyjum aðfararnótt laugardags, fórum þaðan að morgni og að Tungnaá. Skoðuðum Bjallavað og Hófsvað, hittum á að geta fylgst með hluta af Jöklarannsóknarfélaginu strauja yfir Hófsvaðið. Þaðan fórum við línuveginn að Ljótapolli og niður í Landmannalaugar. Skoðuðum jökulgilin og renndum svo með hraði til baka í Hrauneyjar og Gljúfurleitarleið í Setrið, síðustu metrana í svartamyrkri. Þar var hörkufjör enda Litla deildin í haustferð og fleira fólk þar líka. Fórum að morgni sunnudags í Kisubotnagljúfur og svo Klakksleið, um Leppistungur og í Kerlingafjöll. Tættum svo Kjalveginn heim og komum ekki í bæinn fyrr en um eitt að nóttu. Þetta var frábær ferð og mikil skemmtun. Mælirinn sagði að við hefðum lagt 700 km að baki um helgina sem hlýtur að teljast nokkuð gott.