Það var farið í tveimur hópum í Setrið á föstudagskvöldi. Lúther og Gundur leiddu fyrri hóp um Gljúfurleit og var farið fyrr af stað þar sem sú leið var líklegri til erfiðleika. Ég og tveir kóarar (mér áskotnaðist aukakóari fyrr um daginn) fórum í seinni hópnum með Þorgeiri, Lellu og Bjarka og tekin stefnan á Kerlingarfjöll. Ekki höfðu spámenn rétt fyrir sér með leiðarvalið því hópur eitt var farinn að láta sér leiðast klukkan tíu um kvöldið í Setrinu, en við komumst í hörkufjör á leiðinni með Loðmundi og niður að Setri. Þetta var verulega erfitt færi, hart ofaná og sykur (Lella kallaði þetta flórsykur) undir. Bílarnir á 44" flutu betur og náðu þessu þokkalega en við á minni dekkjunum vorum svolítið spottavæn. Ég þurfti að þiggja spotta nokkrum sinnum yfir nóttina. Við komum í Setur uppúr klukkan sjö að morgni og þar var farinn hálfur sólarhringur í ferðina. Fyrstu menn voru að koma á fætur en okkar hópur dreif sig í koju að undanteknum tveimur snillingum sem þurftu ekki að sofa. Þegar við rifum okkur upp um hádegið voru þeir reyndar rétt um það bil að skipta um skoðun og voru því á leið í koju. Báðir flokkarnir léku sér þennan dag í frábæru veðri en litlum snjó á leið niður í Nautöldu. Mátti heyra öfundartón í þeim sem sváfu meðan við börðumst í gegnum Kerlingarfjallaleiðina vegna skorts á vandræðum. Lella, Valla og fleira gott lið elduðu dýrindis mat um kvöldið og svo var setið og kjaftað og hlegið heilmikið. Sunnudagurinn var fínn. Benni Akureyringur fór ásamt Ármanni, Georg, Frank og fleirum um Kerlingarfjöll aftur inn á Kjöl (gekk fínt enda búið að ryðja slóð). En hjálparsveitin fór niður að Sóleyjarhöfða og yfir á Kvíslarveituveg um Hrauneyjar til baka. Ekki gekk það vandræðalaust, að vísu var enginn snjór til að festa sig í en Sigurgeiri tókst að tylla kastaragrind ofan á smá stein í Hnífánni og þurfti aðeins að hafa fyrir því að ná sér lausum og á Sóleyjarhöfðavaðinu reif Bjarki hjálparsveitarmaður dekk númer tvö. Það voru góð ráð dýr en hann dó ekki ráðalaus og náði í fyrra rifrildisdekkið og var það tappað á staðnum og sett undir. Við komumst ekki langt uns Pjattrolla hjá næsta hjálparsveitarmanni (Lellu) neitaði að fara mikið lengra. Það var stoppað og skoðað og komist að því að sjússar sem honum voru gefnir (ísvari í eldsneyti) voru ætlaðir fyrir bensín en ekki díselolíu og var því sopinn ekki að virka sem skyldi. Lúther sem var kominn talsvert á undan okkur reddaði betri sopa og skildi eftir í Hrauneyjum fyrir okkur svo ekkert var annað að gera en að setja Pjattrolluna í spotta hjá Gundi. Enn var lagt af stað en ekki hratt þar sem við vorum reyndar með aðra Pjattrollu hjá Frikka einum sem ekki gekk með góðu heldur illu þar sem farin var heddpakkning. Í Hrauneyjum, eftir dýrðlega hamborgara og franskar, var Pjattrollan hjá Lellu orðin bara nokkuð spræk (Þorgeir kvartaði undan því að þurfa að slá af upp brekku, er samt ekki viss nema það hafi verið lygi til að rífa sig upp eftir að hafa hangið í spotta og verið kraftlaus). Pjattrolla Frikka var hins vegar sett í spotta og dregin til Hveragerðis en þar er eigandinn með heilt bílaverkstæði á leigu bara til að halda rollunni gangandi. Renndum áfallalaust í bæinn og lauk þar frábærri helgi.