Fórum frá Mörkinni á laugardagsmorgun 10. mars, að vísu voru Goggi bæbæ og Lella og Þorgeir farin í Setur á föstudeginum til að gera klárt. Vorum með fjóra gesti í för, Jónínu umhverfisráðherra, Guðmund Hörð upplýsingafulltrúann hennar, Pál í Ferðafélaginu og Hilmar byggingafulltrúa sem við reyndar náðum í á Laugavatni. Hittum Litlunefndarfólk á Bláfellshálsinum og renndum svo niður í Hvítárnes og skoðuðum þennan merka skála Ferðafélagsins (byggður 1930) með draug og öllu. Renndum við í Árbúðum og fengum kaffi hjá Litlunefndinni. Það var farið frá Árbúðum um hálf-fjögur og rennt upp í Kerlingafjöll. Þar fór góða veðrið og við fengum nokkurn blástur með því sem eftir var niður í Setur. Ekki var hægt að sjá að þetta hefði nein neikvæð áhrif á gestina, smá ævintýri bara. Til gamans má geta þess að einn af þeim bílum sem voru í festum í Kerlingafjöllum var Ford bifreið nokkur sem með var í för. Þurfti Valur að draga 49 tommurnar út úr því en ég var svo heilluð af þessari sjón að því miður láðist mér að draga upp myndavélina. Þorgeir og Goggi komu á móti okkur og hittu okkur í Kerlingafjöllum. Ferðin gekk alveg þokkalega og við vorum komin í Setur um kl. átta. Þar fengum við þessa líka dýrindis máltíð a la Agnes og eftirrétturinn var ekki síðri. Sunnudagur rann upp með ekkert sérstöku veðri þannig að ákveðið var að fara Sóleyjarhöfðann. Færið var flott og sóttist ferðin vel. Umhverfisráðherrann settist undir stýri á Ford bifreiðinni og ég held svei mér að við eigum eftir að sjá hana á breyttum jeppa á fjöllum. Þetta var frábær ferð.