Nokkrar myndir sem ég átti af athyglisverðum jeppa. Þær eru síðan við (bílavalsnefnd) vorum að velja bíla á síðustu sýningu kúbbsins (árið 2002), en þar var hann fyrst til sýnis.
Myndirnar eru af Ford GPW herjeppa, sem er nánast eins og Willys herjeppinn nema grillið er aðeins öðruvísi. Í WW2 stríðinu framleiddu Ford verksmiðjurnar herjeppa eftir Willys teikningunni, með minniháttar breytingum. Eigandinn sem kominn er á eftirlaun, hefur undanfarin ár stytt sér stundirnar við að gera þennan jeppa upp. Vélin er fjögurra cylendra "flat head" Ford, 6 volta rafkerfi. Um miðja síðustu öld byrjuðu íslendingar að nota jeppa til fjalla ferðalaga og útivistar. Það má því segja að herjepparnir (eins og umræddur) séu fræin sem þetta sport sem við stundum nú, óx upp af. Í lokin smá fróðleikur, GPW skammstöfunin kemur frá Ford og þýðir eftirfarandi:
G = Government (framleiðsla fyrir opinber yfirvöld)
P = 80 tommur milli fram og afturhjóla
W = Willys hönnun (smíðaður eftir teikningum frá Willys-Overlad Motor Co).
Enska orðið "Jeep" kemur frá teiknimyndafígúrunni "Eugene the Jeep" úr teiknimyndinni Stjána Bláa ("Popeye")árið 1936, en sú fígúra komst víst um allt. US Army hafði merkinguna GP fyrir General Purpose t.d. á tjöldum og öðrum álíka búnaði. Það eru síðan óbreyttir hermenn aldir upp við Stjána Bláa sem fóru að nota nafnið á litla fjóhjóladrifs farartækið. Þeir hafa sjálfsagt ekki vitað hvað Ford var að meina með GPW.