Það stefndi í þokkalegasta ferðaveður þennan dag og úr varð að við bræður ásamt eiginkonum skelltum okkur í dagstúr á fjöll. Lagt var í hann rétt fyrir kl. 9 og komu suðurjöklarnir ágætlega til greina, en þegar fram á Kambabrún kom virtist mjög lágskýjað í þá átt. Úr varð að við settum stefnuna innar í landið og hugmyndin að prófa "betri" leið að Drekavatni og síðan áfram í Jökulheima.