Byggingarsaga Réttartorfu

Skálinn er reistur á þykkri jarðvegstorfu, sem nefnist Réttartorfa. Nafnið kemur til af því að á henni var rétt, þar sem Mývetningar og Bárðdælir drógu fé sitt sundur. Mótar enn fyrir veggjum réttarinnar. Sunnar lækkar torfan og verður sléttari. Þar reistu Bárðdælir gangnamannahús 1976. Á húsið var sett útskorið skilti með nafninu Réttarkot, en bændur á næsta bæ vilja ekki kannast við það nafn á húsinu og telja það mistök þess er skar.
Eyjafjarðardeild 4×4 samdi við Bárðdæli um að klúbburinn reisti þar nýjan skála, sem gangnamenn hefðu til afnota, en klúbburinn ætti. Húsið var gert fokhelt á einni helgi 15.-17. júlí 1994 og síðan hefur verið unnið eitthvað við það nær árlega.

Skálinn er A-hús, um 60 fermetrar að grunnfleti. Niðri er forstofa, eldhús og salur. Uppi er svefnloft.
Í skálanum eru nú 36 dýnur og eru þær vel breiðar. Leggja má 15 dýnur á svefnloftið en vel geta verið um 20 manns á þeim, sé þörf á að þjappa. Niðri eru fjórar dýnur á bálki og talsvert gólfpláss.
Í eldhúsi er steinolíukabyssa og er hún tengd við miðstöðvarofn í endanum á salnum og þurrkgrind í forstofu. Einnig er þar gaseldavél með fjórum hólfum og bakarofni, gasofn og vaskur þar sem hægt er að fá rennandi vatn vetur sem sumar. Í salnum eru núna 5 borð og sæti fyrir 20 manns og borðbúnaður fyrir 24.
Raflýsing er með sólarraflöðu (12V) og úti á snyrtihúsi með þurrsalerni býr ljósavél sem hægt er að gangsetja og fá þannig nokkur kW af 220V rafmagni til að reka aflfrek tæki og til lýsingar í húsinu Einnig má lýsa upp svæðið milli húsanna með miklum ljóskastara sem er á stafni skálans þegar ljósavélin er í gangi.
Pallur er hringinn í kringum skálann og göngubrú er yfir að snyrtihúsi og að stiga sem liggur niður á bílastæðið sunnan torfunnar.
Nú er einnig komin viðbygging við húsið og er verið að innrétta hana. Þar verður vatnssalerni og geymsla.

rettartorfa-umhverfi

Myndin er tekin ofan af Hafursstaðahlíð yfir Réttartorfu og horft er til NV. Skammt norðan við Réttartorfu rennur Sandá og fær hún vatn sitt ofan af Austurdölum, en við suðurbrún Torfunnar rennur lækur sem nefnist Grafarlandagróf. Norðan við Sandá er álma úr Suðurárhrauni sem nær langleiðina niður að Fljóti. Melarnir þar neðan við nefnast Sandárnes. Vestan við Fljótið er Hrafnabjargahlíð. Norður af henni sér í Hrafnabjörg og dæld sem nefnist Álftadalir. Þar austur af er Hrafnabjargavað.
Sunnan við Réttartorfu eru langar eyrar, Hafursstaðaeyrar. Sunnan við þær eru múlar tveir, Sandmúli og Krossármúli (heiti Guðmundar Gunnarssonar í árbók FÍ 1981). Í gili Krossár, milli múlanna tveggja, eru skemmtilegar jarðmyndanir. Leiðin suður á Gæsavatnaleið liggur upp Krossármúlann. Undir Sandmúlanum er bæjarrúst og þar fannst um síðustu aldamót merkur silfursjóður frá 10. öld. Hefur bæjarrústin verið nefnd Sandmúli (ranglega nefnd Hafursstaðir á kortum, því ekki er vitað hvar býlið Hafursstaðir voru. Af heimildum má þó helst ráða að Hafursstaðir hafi verið nyrst á Hafursstaðahlíð, á svipuðum slóðum og skálinn er og á fyrstu árunum eftir byggingu gangnamanna hússins á Réttartorfu virðast bændur hafa nefnt það Hafursstaði.) Við Hafursstaði eru eyrarnar og hlíðin ofan við þær kennd.
Ofan við Hafursstaðahlíð eru melar með gróðurlendum á milli og nefnast þar Grarfarlönd og Austurdalir, en dalirnir inn með Skjálfandafljóti nefnast einu nafni Framdalir. Góð útsýn er ofan af efstu bungunni á hlíðinni og sér þaðan norður til Mývatnssveitar, austur um Ódáðahraun og suður til Bárðarbungu og Tungnafellsjökuls.
Í árbók Ferðafélags Íslands 1981, sem nefnist Ódáðahraun og rituð er af Guðmundi Gunnarssyni, er 20 blaðsíðna kafli um leiðina frá Stórutungu til Gæsavatna og er áhugamönnum um þetta svæði bent á að lesa hann.