01thak_sm
Skipt um þak í einni af fyrstu vinnuferðum klúbbsins.

Á árinu 1992 hófust viðræður við eigendur gangnamannaskálans að Skiptabakka, þ.e. Upprekstrarfélag Eyvindarstaðaheiðar, um að, þá nýstofnuð deild í ferðaklúbbnum 4×4 í Skagafirði, fengi skálann til afnota gegn því að endurnýja hann og stækka. Var gengið frá leigusamningi veturinn 1992-1993 og um páska vorið 1993 fóru félagar í deildinni á staðinn til að gera vettvangskönnun og fyrstu mælingar.
Endurbætur voru síðan ákveðnar og teiknaðar af teiknimeistara deildarinnar, Birni Mikaelssyni, yfirlögreglumanni og fenginn var til að smíða nýja glugga í bygginguna Friðbjörn Jónsson, húsasmiður á Sauðárkróki. Vegir á hálendið opnuðust óvenju seint þetta vor og var umferð á fjallvegum hér norðanlands víða ekki leyfð fyrr en í lok júlímánaðar. Því var það ekki fyrr en 17. júlí sem fyrst var farið á staðinn og vinna hafin og þá var þrifið innan úr húsinu. 01undirb_sm
Hjá Friðbirni, smíðaðir gluggar, og skammbitar.

15hreinsun_sm
Að loknu hreinsunarátakinu var haldin brenna.

03thak_sm

02thak_sm3
Skipt um þak, Baldur, Stefán Héðins, Sigurjón, Helgi Ragnars, Stefán Braga, Steinar, Óskar og Hilmar.  Þorkell tók myndina.

Í ferðinni voru þáverandi formaður, Helgi Ragnarsson, Sigurjón Jónsson, þáv. gjaldkeri og sonur hans Árni Viggó og einnig voru þeir Stefán Bragason, ritari og Stefán Héðinsson, meðstjórnandi. Laugardaginn 24. júlí 1993 fóru þeir Helgi Ragnarsson og Sigurjón Jónsson ásamt þeim Stefáni Bragasyni og Stefáni Héðinssyni á staðinn og þá var margt gert, járnklæðning tekin af og pappi endurnýjaður og allt klætt aftur og nýir gluggar settir í húsið. Gist var í tjaldvagni gjaldkerans, því allt var hreinsað innanúr skálanum og því sem ónýtt var brennt.Þessi valdi hópur gerði þær mælingar, sem nauðsynlegar þóttu vegna efniskaupa. Í byrjun verslunarmannahelgar, nánar tiltekið föstudaginn 30. júlí, var gerður samningur við Rögnvald Árnason vörubílstjóra á Sauðárkróki um húsaskjól til að byggja forstofu við skálann. Var efni keypt og framkvæmdir strax hafnar. Sunnudagskvöldið 1. ágúst voru sperrur og veggir reistir. Í fyrstu störfuðu formaður og gjaldkeri einir að smíðinni af sinni alkunnu snilld, enda vanir menn, eða þannig.  Fljótlega komu þó fleiri félagar að smíðinni og skal þar fyrst telja þá Stefánana fyrrnefndu og Baldur Haraldsson, múrarameistara, sem reyndist betri en enginn og Ólaf Björnsson, blikksmíðameistara, sem lagði gjörva hönd á margt og þá ekki síst það, sem að hans faggrein sneri. Síðan má telja Steinar Pétursson, Vilhelm Pálsson, Steinþór Héðinsson, Stefán Guðjónsson, Hilmar Baldursson, Óskar Halldórsson, Stefán Jónsson, Sævar Einarsson á Hamri og föður hans, Einar Kristinsson og vafalaust gleymast einhverjir.Dagana sem á eftir fóru komu svo einhverjir ofangreindra á staðinn og var haldið vel áfram og 8. ágúst var járn komið á þak forstofunnar. Þá var strax tekið til við að einangra og klæða húsið innan með panel. 18. ágúst var smíðin tekin út úr húsinu hjá Rögnvaldi. Var nú tekið til við að hyggja að framkvæmdum á Skiptabakka. Laugardaginn 21.8. var farið á staðinn og skálinn einangraður, gólf klætt með panel úr gömlu kojunum, þakjárn tekið af og þakið einangrað og klætt aftur með sama járninu.
Næstu helgi á eftir var einnig farið á staðinn og þá var tekið til við að klæða skálann innan með panel, sem var af þessu tilefni fluttur þangað. Þá kom einn félaginn, Rúnar Símonarson á traktorgröfu föður síns og þá var grafið fyrir undirstöðum forstofunnar og þær steyptar, komið var fyrir vatnsgeymum, rotþró og olíutank. Laugardaginn 4. september var svo forstofunni komið fyrir á risabifreið Rögnvaldar Árnasonar og daginn eftir var haldið af stað í bítið með húsið. Tókst ferðin miklu betur en menn höfðu leyft sér að vona og var viðbyggingunni komið fyrir á undirstöðum sínum og hún tengd aðalhúsinu þann dag. Fóru menn þá ánægðir og stoltir heim að kvöldi sunnudags.

05flutt_sm
Rögnvaldur með forstofuna, Sigurjón og Baldur á pallinum.

inni01_sm
Pípulagnaferð

Næsti framkvæmdadagur var sunnudagurinn 19. september og þá var unnið í flasningum úti við, og panelklæðningum, einangrun á millivegg og ýmsum frágangi. Næst var farið á staðinn þ. 17. október og unnið að frágangi, einkum úti við. Í janúar 1994 kom svo aftur til sögunnar Friðbjörn Jónsson listasmiður, en hann smíðaði kojur í skálann og sunnudaginn 30. janúar var farið með kojuefnið tilsniðið fram eftir. Næstu helgi á eftir var svo farið á staðinn og kojurnar settar upp. Í vikunni á eftir smíðaði svo Friðbjörn borð og bekki í skálann, hið mesta listaverk, sem gestir berja nú augum.
(Þessi samantekt var flutt á þorrablótsfagnaði deildarinnar 1994 á tilefni þess að þá voru endurbæturnar teknar formlega í notkun.)