Afmælisferð Litlunefndar

Hópstjórar í Landmannalaugum

Að morgni fimmtudagsins 19. apríl s.l. hittust eigendur um 60 jeppa á Stöðinni við Vesturlandsveg.  Tilefnið var 10 ára afmlisferð Litlunefndar í Landmannalaugar.  Fyrsta ferð Litlunefndar var einmitt farin í Landmannalaugar í mars 2002.

Eins og venja er var hópnum skipt í minni hópa og hélt hver hópur af stað þegar hann var fullmannaður.  Leiðin lá upp Þjórsárdal og að Hrauneyjum, en flestir stoppuðu þar augnablik áður en haldið var af stað eftir Sigölduleiðinni.  Veður var fallegt og færið sérlega gott fyrri hluta dagsins, en snjór í minna lagi. Enda fór svo að fyrstu bílar voru komnir að skálunum við Landmannalaugar fyrir klukkan 13.  Áð var nokkuð lengi í Laugum enda veður ótrúlega gott og var ekki haldið til baka fyrr en um kl. 16, en þá voru minnstu bilarnir komnir nokkru fyrr.
Ákveðið var að freista þess að fara Dyngjuleið og um Valagjá til baka, en þegar komið var að gatnamótunum að Valagjá var því breytt og farið um Áfangagil.  Þegar líða tók á daginn þyngdist færið allverulega enda mikil snjóbráð í sterkri vorsólinni.  Dró þá nokkuð úr ferðahraða minni bílanna og þurftu þeir á einhverri aðstoð að halda í gegn um skaflana.
Komust allir að lokum niður á Landveg og héldu hver til síns heima.  Ekki urðu neinar bilanir í þessari ferð sem heitið getur, nema að einn bíll fór að hita sig á þjóðveginum.  Snéri sá við og hélt til baka.  Í einum bíl fór hjólalega í nálægð við Hrauneyjar og snéri hann einnig við og náði að komast heilu og höldnu til baka.  Að lokum fór hjólalega í bíl þegar komið var að borgarmörkunum á heimleið.  Var skipt um legu á staðnum og náði viðkomandi að komast heim.  Annars var þetta ein allra besta ferð Litlunefndar mtt. veðurs og færis og þess fjölda bíla sem fór með.
Litlanefndin þakkar þeim sem komu að þessari ferð, sem hópstjórar, fréttaritarar og auðvitað þeim sem komu með okkur til að ferðast.  Það var líka skemmtilegt að nokkrir eldri Litlunefndarmenn komu með sem heiðursfararstjórar.
Við óskum ykkur öllum gleðilegs sumars og þökkum fyrir frábæran ferðavetur.  Myndakvöld verður á fimmtudagskvöldið 26. apríl n.k. en eftir það förum við í sumarfrí og tökum svo upp þráðinn aftur með spennandi ferðum í haust og næsta vetur.
Myndir úr ferðinni:

Skildu eftir svar