Ferðaklúbburinn 4×4 og Ferðafélag Íslands í samstarf um Nýjadal

Samningur Ferðafélags Íslands og Ferðaklúbbsins 4×4: Klúbburinn fær afnot af skálum FÍ í Nýjadal

Ferðaklúbburinn 4×4 og Ferðafélag Íslands hafa undirritað samning þess efnis að Ferðaklúbburinn hafi afnot af skála FÍ í Nýjadal næstu 10 árin, aðstoði við endurbætur skálans og sjái um rekstur hans yfir vetrartímann eða frá 1. október til 15. Apríl. Markmið samningsins er að efla og bæta aðstöðu fyrir ferðamenn í Nýjadal að vetri til og greiða þannig fyrir öruggari og ánægjulegri vetrarferðalögum á svæðinu.

Í samningnum er kveðið á um að Ferðaklúbburinn 4×4 aðstoði FÍ við uppbyggingu á skálunum í Nýjadal og að sú aðstoð verði í formi kunnáttu og reynslu af byggingu og rekstri vetrarskála. Nýjidalur er í 800 m hæð og er áhugaverður áfangastaður að vetrarlagi.  Þar standa tveir gistiskálar sem samtals rúma 110 manns sem er mesta gistirýmið á hálendinu. Núverandi hús eru byggð á árunum 1965 og 1975 og voru einkum hugsuð til sumarnota. Góð vetraraðstaða krefst hins vegar töluvert meiri aðstöðu, einkum er varðar vatn, salerni og upphitun.

„Hér er um tímamótasamning að ræða og afar ánægjulegt að þessi tvö félög skuli ná saman um uppbyggingu og bætta nýtingu skálanna í Nýjadal. Við fögnum því að fá afnot af Nýjadalsskálunum og munum einhenda okkur í að gera þá vistlegri og framkvæma þar nauðsynlegar endurbætur,“ segir Hafliði S. Magnússon, formaður Ferðaklúbbsins 4×4.

„Við hjá Ferðafélagi Íslands treystum félagsmönnum í Ferðaklúbbnum 4×4 til að taka þessi hús okkar í fóstur. Við vitum að þeir jeppamenn, sem mikið ferðast um hálendið að vetrarlagi, vita manna best hvernig best er að ganga frá hlutum þar sem veður eru válynd. Jafnframt teljum við að með þessu samkomulagi megi búast við aukinni nýtingu á skálunum yfir vetrartímann. Það er fagnaðarefni,“ segir Þórður Höskuldsson, stjórnarmaður í FÍ sem undirritaði samninginn fyrir hönd félagsins.

Nánar verður farið yfir samninginn á næsta félagsfundi Ferðaklúbbsins 4×4. Hann verður mánudaginn 5. nóvember næstkomandi.

Skildu eftir svar