Dagana 1. til 4. maí fórum við félagarnir á Vatnajökul. Farið var á jökulinn um Jökulheima, Tungnaárjökul að Pálsfjalli, Þórðarhyrnu og Hábungu að Grímsfjalli. Niður af jöklinum var Bárðarbunga sneidd, niður Köldukvíslarjökul, Vonarskarð og Köldukvíslarbotna, þá norður fyrir Hágöngulón og í Páfagarð og síðar Setur um Sóleyjarhöfða. Ferðin hin besta í ágætis veðri ef frá eru talin smá frávik á leið okkar um Vonarskarð og Köldukvíslarbotna, en veður var hryssingslegt á þeim slóðum ásamt því sem Köldukvíslarbotnarnir reyndust okkur erfiðir yfirferðar.